Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10

Frjálsíþróttasamband Íslands hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ

05.10.2017

Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) hefur hlotið viðbótarstyrkveitingu úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna landsliðsverkefna ársins 2017. Um er að ræða styrk að upphæð 11 m.kr. sem bætist við fyrri úthlutun til sambandsins, en sambandið hlaut styrk að upphæð 12 m.kr. í fyrri úthlutun ársins úr Afrekssjóði ÍSÍ.

Þessi viðbótarstyrkur til FRÍ skiptir mjög miklu máli fyrir afreksstarf sambandsins, en umfang þess hefur aukist mikið á árinu og heyra 11 verkefni á erlendri grundu undir skilgreint afreksstarf sambandins. Allt starf FRÍ miðar að því að bæta umhverfi afreksíþróttamanna sambandsins og öðlast svigrúm til að mæta þörfum íþróttamanna með skilvirkum hætti þegar mest á reynir í undirbúningi fyrir stórmótaverkefni og til að geta sem best mætt þeirri áskorun sem felst í markmiði FRÍ og ÍSÍ á afrekssviði - þ.e. að eiga afreksfólk sem skipar sér á bekk með þeim bestu í heiminum á hverjum tíma og að getustig íslensks frjálsíþróttafólks hækki stöðugt.

Á myndinni má sjá þau Guðlaugu Baldvinsdóttur, gjaldkera FRÍ, Frey Ólafsson, formann FRÍ, Lilju Sigurðardóttur, formann Afrekssjóðs ÍSÍ og Lárus L. Blöndal, forseta ÍSÍ við undirritun samnings um viðbótarstyrkinn.

Vefsíða Frjálsíþróttasambands Íslands er fri.is

Myndir með frétt