Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
15

Frábær upplifun og vinátta þátttakenda í námskeiði Ólympíuakademíunni

21.08.2024

 

Hið árlega námskeið á vegum Alþjóðaólympíuakademíunnar, sem kallast á ensku International Session for Young Olympic Ambassors, var haldið í 64. skipti í Grikklandi dagana 8. – 21. júní sl. Þátttakendur hittust í upphafi ferðar í Aþenu þar sem formleg setningarathöfnin fór fram en ferðuðust svo saman til borgarinnar Ólympíu þar sem aðalhluti námskeiðsins var haldinn. Námskeiðið sameinaði rúmlega 140 fulltrúa frá 80 löndum en þeir eiga það sameiginlegt að nám eða störf þeirra tengjast íþróttum og Ólympíuhreyfingunni á einn eða annan hátt. Helsta markmiðið er að fræða þátttakendur um gildi Ólympíuhreyfingarinnar og var aðal þemað í ár "The athlete in society - The athlete in modern society: inspiring and fostering unity".

Fulltrúar Íslands á námskeiðinu voru Melkorka Rán Hafliðadóttir og Sveinn Sampsted. Elín Lára Reynisdóttir, sem var fulltrúi Íslands árið 2022, tók einnig þátt í nýju hlutverki sem skipuleggjandi (e.coordinator) svo í raun átti Ísland þrjá fulltrúa á svæðinu. Skv. Sveini og Melkorku Rán var dagskráin þéttskipuð nánast alla daga, þar sem þátttakendur tóku þátt í ýmsum fyrirlestrum og vinnuhópum auk þess sem þeir héldu margvíslegar hópakynningar á bæði skipulögðum umfjöllunarefnum námskeiðsins, s.s. inngildingu, sem og öðrum málefnum sem tekin voru fyrir. Þá var hluti af námskeiðinu að kynnast öðrum þátttakendum vel og kynna land og þjóð og voru það Melkorka Rán og Elín Lára sem Íslandskynningu fyrir hópinn. Þá var í boði að taka þátt í ýmsum íþróttum og íþróttakeppnum, m.a. í anda Ólympíuleikanna, og má nefna Ólympíuhlaup, hlaupi með Ólympíueldinn, blakmót og frjálsíþróttamót en Melkorka Rán gerði sér lítið fyrir og vann 100m hlaup og varð fyrir vikið sannkallaður „Ólympíumeistari". Fyrir utan skipulagða dagskrá fór hópurinn reglulega í strandferðir, vettvangsferðir og skoðunarferðir og kynntust þannig öðrum þátttakendum vel.

Melkorka Rán og Sveinn voru mjög sátt með ráðstefnuna og upplifunina. Þau töluðu sérstaklega um hversu fljótt þau hefðu kynnst öðrum þátttakendum og tengst þeim sterkum vinaböndum. Núna væru t.d. fulltrúar Eistlands og Litháen búnir að koma til Íslands til að hitta þau og von væri á fleirum í framtíðinni. Þessi vinátta og kynni við marga aðra þátttakendur væri það sem stæði uppúr eftir frábæra daga í Grikklandi.

Hinseginleikinn
Á námskeiðinu var Sveinn mjög opinskár um eigin hinseginleika og málefni hinsegin fólks. Málefninu var vel tekið af bæði skipuleggjendum og þátttakendum og voru Þjóðverjar með sérstakan fókus á málefni kynsegin fólks. Hollenska nefndin tók viðtal við íslensku þátttakendurna til að læra meira um málefni kynsegin íþróttafólks. Áhugaverðast skv. Sveini og Melkorku Rán var að eiga samtöl við einstaklinga úr hópnum frá þjóðum þar sem hinseginleiki er ólöglegur og honum fylgir jafnvel dauðarefsing. Margir þátttakendur frá þeim löndum höfðu aldrei hitt samkynhneigðan karlmann, sem kominn var út úr skápnum, og voru mjög áhugasöm fyrir vikið og spurðu ótal spurninga. 

 

Myndir/einkasafn.

Myndir með frétt