Árangursríkt ársþing UMSE

Ungmennasamband Eyjafjarðar hélt ársþing sitt í Safnaðarheimilinu á Dalvík fimmtudaginn 3. apríl síðastliðinn. Þingið var ágætlega sótt, alls voru 28 þingfulltrúar mættir frá 11 aðildarfélögum. Nokkrar tillögur lágu fyrir þinginu og voru þær allar samþykktar, þ.m.t. fjárhagsáætlun og tillaga um breytingu á reglugerð um skiptingu lóttófjár þar sem stærri hluti rennur nú til aðildarfélaga UMSE en áður. Þingforseti var Kristján Ólafsson sem komst vel frá hlutverkinu og var sérstaklega duglegur við að fá þingfulltrúa í pontu í stað tjáningar úr sæti.
Stjórn UMSE skipa nú Þorgerður Guðmundsdóttir formaður, Einar Hafliðason gjaldkeri, Snæþór Arnþórsson varaformaður, Jónína Heiðveig Gunnlaugsdóttir ritari og Kristín Thorberg meðstjórnandi. Í varastjórn eru þau Marinó Þorsteinsson, Bjarnveig Anna Sigfúsdóttir og Jón Sæmundsson. Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Viðar Sigurjónsson sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ og aðrir gestir voru Þóra Pétursdóttir svæðisfulltrúi á Norðurlandi eystra og Gunnar Þór Gestsson varaformaður UMFÍ. Á myndinni eru frá vinstri, Þorgerður Guðmundsdóttir formaður UMSE og Helena Frímannsdóttir varaformaður Umf. Reynis sem hlaut gullmerki UMSE á þinginu.