Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
2

ÍSÍ úthlutar styrkjum vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleika

09.06.2012Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samþykkti, fimmtudaginn 31. maí 2012,  tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og Styrktarsjóðs ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna varðandi styrki til sérsambanda ÍSÍ vegna undirbúnings fyrir London 2012. 
Styrkveitingar ÍSÍ að þessu sinni nema samtals tæplega 40 milljónum króna en úthlutað er tæplega  39 m.kr. úr Afrekssjóði ÍSÍ og 1 m.kr. úr Sjóði ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna. 
Nýverið úthlutaði ríkisstjórn Íslands 15 m.kr. til ÍSÍ vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í London og er þeirri upphæð úthlutað að þessu sinni.  Þá sótti ÍSÍ um styrk til Ólympíusamhjálparinnar vegna lokaundirbúnings A-landsliðs karla í handknattleik og hlaut styrk að upphæð 80.000 USD sem uppreiknast til 10 m.kr.
Handknattleikssamband Íslands (HSÍ) hlýtur að þessu sinni heildarstyrk að upphæð 26 m.kr. vegna lokaundirbúnings A-landsliðs karla fyrir Ólympíuleikana í London 2012.  Í þeirri upphæð er framlag Ólympíusamhjálparinnar sem reiknast sem 10 m.kr. en er þó háð gengisstöðu íslenskrar krónu gagnvart bandaríkjadal.
Sundsamband Íslands (SSÍ) hlýtur alls rúmlega 7 m.kr. að þessu sinni.  Hækkaður er styrkur vegna Eyglóar Óskar Gústafsdóttur sem var á C-styrk sjóðsins en er nú færð á A-styrk.  Eygló Ósk er aðeins 17 ára gömul en er nú þegar búin að tryggja sér þátttökurétt á leikunum í London í sumar.  Þá er veittur B-styrkur vegna Söruh Blake Bateman og C-styrkur vegna Evu Hannesdóttur, sem taka gildi frá 1. apríl 2012.  SSÍ hlýtur einnig styrk að upphæð 1 m.kr. til að undirbúa þá landsliðsmenn sem eru á námsstyrkjum í Bandaríkjunum fyrir leikana í London.  Er þar helst að nefna Hrafnhildi Lúthersdóttur sem hefur staðið sig mjög vel að undanförnu og er ásamt þeim þremur fyrrtöldu í boðssundssveit Íslands sem náði frábærum árangri nýverið.  SSÍ hlýtur einnig styrk að upphæð 3,5 m.kr. vegna lokaundirbúnings fyrir leikana í London í sumar.
Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) hlýtur styrk að upphæð 4 m.kr. vegna lokaundirbúnings fyrir leikana í London.  Nú þegar hafa þrír frjálsíþróttamenn náð lágmörkum á leikana í sumar og er von á að fleiri nái þeim áfanga, nú þegar keppnistímabilið er hafið.
Júdósamband Íslands (JSÍ) hlýtur styrk að upphæð kr. 800.000 vegna lokaundirbúnings Þormóðs Árna Jónssonar fyrir leikana í sumar og Badmintonsamband Íslands (BSÍ) hlýtur kr. 500.000 vegna lokaundirbúnings Rögnu Ingólfsdóttur.
Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) hlýtur styrk úr Afrekssjóð ÍSÍ að upphæð kr. 300.000 vegna Kolbrúnar Öldu Stefánsdóttur og bætist sá styrkur við fyrri styrk til hennar úr Styrktarsjóði ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna. 
Þá hlaut Handknattleikssamband Íslands (HSÍ) 1 m.kr. styrk úr Styrktarsjóði ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna vegna tveggja piltalandsliða sem hafa tryggt sér keppnisrétt í úrslitakeppni Evrópumóts 2012, eða U-18 pilta og U-20 pilta.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands óskar íþróttafólkinu góðs gengis í þeim verkefnum sem framundan eru.