Borðtennissamband Íslands hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ
Hjá sambandinu er verið að horfa til frekari uppbyggingar á afreksstarfinu og stækkun afrekshópa. Stærsti þátturinn þar er að efla þjálfaramenntun til að auka getu afreksefna innan hreyfingarinnar. Sem liður í þeirri áætlun var nú í september sl. haldið þjálfaranámskeið á Íslandi í samstarfi við Evrópska borðtennissambandið (ETTU) fyrir íslenska þjálfara hjá aðildarfélögum BTÍ. Tveir íslenskir þjálfarar með ITTF 1 þjálfaragráðu halda svo til Möltu í lok október mánaðar til að klára ITTF 2 þjálfaragráðuna og verða þeir þeir fyrstu með þá gráðu hér á landi. Verið er að endurskipuleggja þátttöku sambandsins í alþjóðlegu starfi og velja mót og æfingabúðir sem henta þeim leikmönnum sem eru í afrekshópum sambandsins. Styrkur Afrekssjóðs ÍSÍ hjálpar til við að efla enn frekar það afreksstarf sem er í gangi innan sambandsins sem og undirbúning og þátttöku í alþjóðlegum verkefnum.
Á myndinni má sjá þau Lilju Sigurðardóttur, formann Afrekssjóðs ÍSÍ, Andra Stefánsson, sviðsstjóra Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ, Ingimar Ingimarsson, formann BTÍ og Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur, ritara BTÍ.