Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
15

Afrekssjóður ÍSÍ styrkir Handknattleikssamband Íslands

09.01.2019
Afrekssjóður ÍSÍ hefur hafið úthlutun á styrkjum vegna 2019 og hlýtur HSÍ styrk að upphæð 60 m.kr. vegna verkefna ársins.
 
Handknattleikssamband Íslands (HSÍ) flokkast sem A/Afrekssérsamband samkvæmt flokkun Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2019, en flokkunin byggir á árangri síðustu ára og afreksumgjörð sérsambandsins. Heildarstyrkveiting sjóðsins til HSÍ vegna verkefna ársins er 60 m.kr. en á síðasta ári hlutu verkefni HSÍ styrk að upphæð 51,6 m.kr.
 
Mörg stór verkefni eru á dagskrá HSÍ á árinu og það stærsta er nú strax í upphafi ársins er A-lið karla tekur þátt í lokakeppni HM. Síðar á árinu eru á dagskrá leikir í undankeppni EM auk vináttulandsleikja. Þá tekur A-lið kvenna þátt í undankeppnum á þessu ári, bæði fyrir HM sem og undankeppni fyrir EM.
Fjölmörg verkefni eru einnig hjá yngri landsliðum Íslands en þeim hefur gengið vel á undanförnum árum og hafa bæði U-19 og U-21 karla með árangri sínum 2018 tryggt sér þátttöku á HM 2019. HSÍ heldur úti yngri landsliðum í þremur aldurshópum karla og kvenna auk þess sem að öflug hæfileikamótun er í gangi hjá sambandinu. Þá má nefna að U17 lið drengja tekur þátt í Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem fram fer í Bakú í Aserbaídsjan, en þátttökuréttur byggir á árangri yngri landsliða HSÍ á árinu 2018.       
 
Það voru þeir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ og Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ sem undirrituðu samninginn fyrir hönd HSÍ og þau Lilja Sigurðardóttir, formaður stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ fyrir hönd Afrekssjóðs ÍSÍ. Á myndinni handsala þau Guðmundur og Lilja samninginn.