Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Lyfjaeftirlit í íþróttum

Lyfjaeftirlit Íslands sér um framkvæmd lyfjaeftirlits meðal íþróttafólks á Íslandi. Lyfjaeftirlitið starfar samkvæmt reglum Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar, WADA.

Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunin var stofnuð árið 1999 fyrir tilstuðlan Ólympíuhreyfingarinnar og ríkisstjórna heimsins í þeim tilgangi að berjast gegn lyfjamisnotkun í íþróttum. Hlutverk WADA er að efla og samræma lyfjaeftirlit í heiminum sem og að fylgjast með framkvæmd lyfjaeftirlits og baráttunni gegn lyfjamisnotkun í allri sinni mynd, um allan heim.

Lyfjaeftirlitið er einn mikilvægra þátta til að stuðla að lyfjalausum íþróttum. Alþjóðlegt lyfjaeftirlit er framkvæmt í samræmi við Alþjóða lyfjaeftirlitsreglurnar (World Anti Doping Code) og alþjóðlega staðla WADA um lyfjaeftirlit.

Íþróttamaður sem keppir hvort heldur er innanlands eða á alþjóðavettvangi, má eiga von á að vera boðaður í lyfjapróf hvar og hvenær sem er. Lyfjaeftirlitið getur verið framkvæmt á keppnisstað í tengslum við keppni, eða utan keppni, t.d. á æfingu eða heima hjá viðkomandi keppanda, án nokkurrar viðvörunar. Viðurkenndir lyfjaeftirlitsaðilar sjá um framkvæmd eftirlitsins.
 
Öflugt lyfjaeftirlit er afar mikilvægt – fyrir allt íþróttafólk og allar íþróttir.

Heimasíða Lyfjaeftirlits Íslands.