Almannaheillafélög - Almannaheillaskrá
Í apríl 2021 voru samþykkt lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla): Lög 32/2021.
ÍSÍ hvetur forystu íþrótta- og ungmennafélaga í landinu til að skrá félögin í almannaheillaskrá Skattsins og eiga þannig möguleika á að nýta sér þá skattalegu hvata sem skráningin getur gefið.
Íþróttafélög sem óska eftir skráningu í almannaheillaskrá Skattsins þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Skráningu raunverulegs eiganda þarf að vera lokið.
- Félag má ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir.
- Standa þarf skil á ársreikningum fyrir 31. maí ár hvert.
- Standa þarf skil á skattframtölum og skýrslum.
- Liggja þarf fyrir með skýrum hætti í samþykktum hver sé tilgangur félagsins, hvernig framlögum verði ráðstafað til almannaheilla og meðferð eigna við slit.
- Bókhald og ársuppgjör þarf að bera með sér fjárhæð gjafa og framlaga ásamt því hvernig fjármunum hefur verið ráðstafað til almannaheilla.
- Ráðstafa þarf framlögum innan skamms tíma til þeirra málefna sem samþykktir segja til um svo ekki komi til mikillar sjóðasöfnunar á milli ára.
- Nýjustu samþykktir eða lög félaga þurfa að liggja fyrir hjá fyrirtækjaskrá Skattsins til að unnt sé að taka afstöðu til umsóknar.
Íþróttafélög greiða fjármagnstekjuskatt vegna vaxtatekna, arðstekna og af söluhagnaði af hlutabréfum. Undanskilin greiðslu fjármagnstekjuskatts eru þau íþróttafélög sem eru skráð í almannaheillaskrá Skattsins.
Sé íþróttafélag skráð í almannheillaskrá Skattsins ætti staðgreiðsla ekki að vera tekin af fjármagnstekjum félagsins. Gerist það er rétt að hafa samband við viðkomandi fjármálastofnun og óska eftir leiðréttingu.
Íþróttafélög kunna að hafa heimild til endurgreiðslu 100% þess virðisaukaskatts sem þau hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum, sem alfarið eru í eigu þeirra samkvæmt skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Gildir heimildin á tímabilinu 1. mars 2022 til 31. desember 2025.
Mannvirki þarf að vera nýtt að yfirgnæfandi hluta í þágu meginstarfsemi félagsins samkvæmt samþykktum þess. Skilyrði fyrir endurgreiðslu er að íþróttafélag sé skráð í almannaheillaskrá Skattsins.
Hægt er að sækja um endurgreiðslur í sex ár talið frá því að endurgreiðsluréttur stofnaðist. Sjá nánar á: Endurgreiðsla vegna almannaheillafélaga | Almannaheillafélög | Skatturinn - skattar og gjöld
Rekstraraðilum er heimill skattafrádráttur upp að 1,5% af rekstrartekjum ársins vegna gjafa til íþróttafélaga að því gefnu að félagið sé skráð í almannaheillaskrá Skattsins, skv. 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 15. – 20. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
Einstaklingum er heimill 350.000 kr. skattafrádráttur (700.000 kr. hjá hjónum) vegna gjafa og framlaga til íþróttafélaga að því gefnu að félagið sé skráð í almannaheillaskrá Skattsins þegar framlagið er veitt og að upplýsingar um fjárhæð framlagsins hafi verið mótteknar hjá skattinum frá félaginu til áritunar á skattframtal, sbr. 7. tölul. A liðar 30. gr. laga nr. 90/2003.
Félagsgjöld eða greiðslur til almannaheillafélags fyrir vörur og þjónustu skapa ekki rétt til skattfrádráttar.
Íþróttafélög þurfa hvorki að breyta lögum sínum né greiða nýskráningargjald eða breytingagjald við skráningu í almannaheillaskrá Skattsins.
Íþróttafélög sem skráð eru í Almannaheillaskrá skattsins og taka á móti gjöfum eða framlögum, þurfa að gefa út kvittun við móttöku þar sem m.a. kemur fram nafn og kennitala gefanda og fjárhæð framlags. Að almanaksári loknu þarf félagið að taka saman upplýsingar um fjárhæð gjafa og framlaga hvers gefanda og skila til Skattsins samhliða öðrum árlegum gagnaskilum fyrir 20. janúar ár hvert. Á grundvelli gagnaskilanna verður frádráttur áritaður á framtal gefenda.
Íþróttafélög sem óska eftir skráningu þurfa að senda inn umsókn til Skattsins eigi síðar en 1. nóvember vegna þess almanaksárs sem skráningu er ætlað að ná til. Verði umsókn samþykkt telst félagið skráður í almannaheillaskrá Skattsins frá og með þeim degi sem sótt var um skráningu. Frá þeim tímamörkum gilda réttindi tengd skráningunni. Endurnýja skal skráningu í almannaheillaskrá Skattsins árlega fyrir hvert byrjað almanaksár ekki síðar en 15. febrúar ár hvert.
Þess ber að geta að enda þótt að í leiðbeiningum Skattsins sé almennt vísað til íþróttafélaga þá afmarkast umfjöllunin ekki eingöngu við slík félög heldur geta þær átt við aðra aðila sem hafa með höndum íþróttastarfsemi í skilningi laga nr. 50/1988.
Listi yfir félög skráð í almannaheillaskrá Skattsins.
Upplýsingar um almannaheillafélagaskrá Skattsins.