Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Foreldrar

22.02.2013

Undirritaður hefur verið þátttakandi í íþróttahreyfingunni meira og minna frá barnæsku, í flestum þeim hlutverkum sem hreyfingin hefur upp á að bjóða – allt frá því að vera iðkandi í yngstu aldursflokkum, frá því að njóta þeirra forréttinda að vera keppandi fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi, og til þess að sinna stjórnunarstörfum í efsta lagi stjórnkerfisins.

Eitt er það hlutverk sem líklega meira en nokkuð annað hefur aukið skilning á gildi og verðmæti þeirrar mikilvægu samfélagslegu starfsemi sem fram fer innan vébanda íþróttahreyfingarinnar – en það er foreldrahlutverkið.  Hafandi sjálfur notið skjóls og góðs uppeldis sem barn og þátttakandi í íþróttahreyfingunni á sínum tíma þá opnast hreinlega nýir heimar að upplifa starfsemina frá sjónarhóli foreldris.

Foreldrar gegna mikilvægu hlutverki – miklu mikilvægara en margir gera sér grein fyrir – í að halda úti íþróttastarfsemi hér á landi.  Auk þess að hafa skapað hin tápmiklu ungmenni og komið þeim í þennan heim þá er samstarf íþróttafélaga við fjölskyldur og heimilin í landinu mikil stoð starfseminnar.  Þaðan kemur drjúgur hluti fjármögnunar, sjálfboðavinna og önnur úrræði sem myndar sterka heild.

Á fjölmennum íþróttamótum má vissulega sjá ákafa foreldra stíga yfir línur hinnar mikilvægu jákvæðu hvatningar til yngstu þátttakendanna – en með sama hætti er jafnan ánægjulegt að sjá hvernig aðrir foreldrar og tilmæli skipuleggjenda vinna í sameiningu að því að beina allri þeirri orku í jákvæðan og uppbyggilegan farveg.  

Undirritaður hefur jafnframt – eftir að hafa sjálfur æft og keppt með báðum stóru íþróttafélögunum í Hafnarfirði – ávallt haft það að leiðarljósi að hvetja börnin þrjú til þátttöku í íþróttum eða skipulagðri æskulýðsstarfsemi, en með sama hætti ekki reynt að stýra því hvaða íþróttagrein þau velja sér eða hvaða íþróttafélag.  Börnin sjálf eiga að finna hvar þeirra áhugi, hæfileikar og félagsskapur liggur.

Með hvatningu og stuðningi foreldra skapast grunnur fyrir áframhaldandi þátttöku barnana, og þar með grundvöllur fyrir afreksstarfi þar sem tæknilegir hæfileikar bætast við stuðning fjölskyldu og skipulegt starf íþróttahreyfingarinnar.  Foreldrar mega hinsvegar að mínu mati aldrei falla í þá gryfju að reyna að endurupplifa eigin glataða framadrauma í gegnum börnin sín, né leyfa sér að líta á þau sem einhverja verksmiðjuafurð á vettvangi afreksíþrótta.  Sem betur fer eru ekki mörg dæmi um slíkt.

Skilaboð íþróttahreyfingarinnar til foreldra eru uppbyggilegur stuðningur og jákvæðni – ásamt endalausu þakklæti fyrir þeirra framlag til starfseminnar.

Ólafur E. Rafnsson,
forseti ÍSÍ