Samningur við Borgarbyggð og framtíðarstefna samþykkt á þingi UMSB
Ársþing Ungmennasambands Borgarfjarðar fór fram laugardaginn 9. mars sl. í Þinghamri, Varmalandi. Vel var mætt á þingið eða 33 fulltrúar frá 12 aðildarfélögum. Fyrir þinginu lágu mikilvæg mál, svo sem framtíðarstefna sambandsins og samstarfssamningur við Borgarbyggð. Hvoru tveggja var samþykkt samhljóða. Samningurinn við Borgarbyggð felur í sér náið samstarf UMSB og Borgarbyggðar, sem mun hafa áhrif á rekstrargrundvöll sambandsins. Með samningnum tekur UMSB að sér umsjón allra íþróttatengdra mála fyrir sveitarfélagið. Samningurinn er afrakstur vinnu nefndar um framtíðarstefnu sambandsins en við það starf kom fram mikill vilji til að UMSB starfi sem samnefnari og samstarfsvettvangur ólíkra íþróttagreina í héraðinu. Samþykkt var að koma upp heimasíðu þar sem hægt væri að nálgast 100 ára sögu UMSB á rafrænu formi og skoða þann fjölda ljósmynda sem sambandið á frá starfinu í héraðinu. Tvö ný félög, Golfklúbbur Húsafells og Frjálsíþróttafélag Borgarfjarðar voru tekin inn í samandið með fyrirvara um staðfestingu ÍSÍ og UMFÍ á lögum þeirra.
Sigurður Guðmundsson var endurkjörinn formaður UMSB. Ný inn í stjórn var kjörin Þórhildur María Kristinsdóttir og ný inn í varastjórn voru kjörin þau Sólrún Halla Bjarnadóttir, Bjarni Johansen og Jón Eiríkur Einarsson.
Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ sótti þingið fyrir hönd ÍSÍ.