Norræna skólahlaupið er enn á ný á dagskrá grunnskóla
03.09.2013
Norræna skólahlaupið fór fyrst fram á Íslandi árið 1984, en öllum grunnskólum á Norðurlöndunum stendur til boða að taka þátt í hlaupinu á hverju hausti. Nú hafa grunnskólar landsins fengið sendar til sín upplýsingar um hlaupið í ár og vonumst við eftir góðri þátttöku.
Með norræna skólahlaupinu er keppt að því að sem flestir (helst allir) séu þátttakendur en hægt er að velja um þrjár vegalengdir, 2.5, 5 og 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri og heildarúrslit send skólunum og birt í fjölmiðlum. Mjólkursamsalan hefur verið aðal styrktaraðili hlaupsins, en helsti samstarfsaðili í þessu verkefni er Íþróttakennarafélag Íslands.