100 dagar í Vetrarólympíuleika
Í dag 30. október 2013 eru 100 dagar í að Vetrarólympíuleikarnir í Sochi verða settir.
Það má því með réttu segja að lokaundirbúningur sé hafinn, en þessa dagana eru íþróttamenn að vinna að því að ná tilsettum árangri til að tryggja sér keppnisrétt á leikunum.
Ólympíueldurinn hefur verið að ferðalagi um Rússland og nú nýverið var farið með hann á Norðurpólinn. Ellefu kyndilberar hlupu þar með kyndilinn og átti Ísland þar einn fulltrúa sem ein af þeim átta þjóðum sem tilheyra hópi norðurskautsríkja. Steingrímur Jónsson hljóp með kyndilinn, en Steingrímur er prófessor við auðlindadeild Háskólans á Akureyri og sérfræðingur við Hafrannsóknastofnun.
Það er ekki oft sem Ísland á kyndilbera fyrir Ólympíuleika og er Steingrímur þar með kominn í fámennan hóp íslenskra kyndilbera.