Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
21

Úthlutun úr Afrekskvennasjóði Íslandsbanka og ÍSÍ

20.12.2013Sjóðsstjórn hefur farið yfir umsóknir vegna úthlutunar úr Afrekskvennasjóði Íslandsbanka og ÍSÍ 2013. Markmið og tilgangur sjóðsins er að styðja við bakið á afrekskonum í íþróttum og gera þeim betur kleift að stunda sína íþrótt og ná árangri. Stjórn sjóðsins skipa þær Helga H. Magnúsdóttir, Elsa Nielsen og Kristín Rós Hákonardóttir.  Umsóknir um styrk voru að þessu sinni 67 talsins. Sem fyrr var sjóðsstjórninni vandi á höndum við að velja úr metnaðarfullum umsóknum sem glöggt sýna kraftinn í afreksíþróttakonum þessa lands. Eftirtaldar íþróttakonur fá styrk að þessu sinni:
 

Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir strandblakskonur HK (500 þúsund) vegna verkefna á árinu 2014. Þrátt fyrir ungan aldur hafa þær náð eftirtektarverðum árangri í grein sinni sem er í uppbyggingu hér á landi. Síðastliðin tvö ár hafa þær orðið Íslandsmeistarar fullorðinna og U19 í grein sinni. Jafnframt urðu þær Norður-Evrópumeistarar í U19 ára flokki. Á næsta ári munu þær m.a. taka þátt í Evrópumóti U23 og U21 ásamt undankeppni Ólympíuleikanna 2016. Samhliða strandblaksiðkun æfa þær jafnframt blak, nýverið var Berglind Gígja tilnefnd blakkona ársins 2013 af stjórn BLÍ.

Valdís Þóra Jónsdóttir Golfklúbbnum Leyni (500 þúsund) fær styrk vegna þátttöku í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi. Valdís er fjórða íslenska konan sem tekur þátt í úrtökumóti Evrópuraðarinnar, til þessa hefur einungis einni tekist að tryggja sér þátttökurétt á mótaröðinni. Valdís komst á 2. stig úrtökumótsins en tókst ekki að tryggja sér þátttökurétt á Evrópumótaröðinni að þessu sinni. Valdís mun á næsta ári taka þátt í hliðarmótaröð Evrópumótaraðarinnar – LET Access tour. Valdís Þóra hefur nýverið gefið upp áhugamannaréttindi sín í golfi og sett sér metnaðarfull markmið um að ná langt í sinni grein.
 
Erna Friðriksdóttir Skíðafélaginu í Stafdal (500 þúsund) fær styrk vegna undirbúnings og keppni á Vetrarólympíumóti fatlaðra í Sochi. Erna er hreyfihömluð og keppir í svigi og stórsvigi á sérhönnuðum skíðasleða. Erna stundar nú eins og undangengna vetur skíðaþjálfun í Winter Park í Colorado. Með markvissum æfingum hefur Erna náð að klífa heimslistann jafnt og þétt. Erna er nú að taka þátt í annað sinn á Vetrarólympíumóti fatlaðra en hún var einnig þátttakandi á leikunum í Vancouver. Reynslunni ríkari stefnir Erna enn hærra nú en á leikunum fyrir fjórum árum.

Skíðasamband Íslands (1 milljón) fær styrk vegna undirbúnings og þátttöku landsliðskvenna á Vetrarólympíuleikunum í Sochi í febrúar n.k. Í Ólympíuhópi SKÍ eru fjórar stúlkur í alpagreinum sem keppast við að tryggja sér þátttökurétt á Vetrarólympíuleikunum sem fram fara í Sochi í Rússlandi á komandi ári. Mikil ferðalög og kostnaður fylgja því að sækja mót er telja til stiga á stigalista Alþjóða skíðasambandsins sem notaður er til grundvallar þegar keppendur eru valdir á Vetrarólympíuleikana. Íslensku stúlkurnar hafa verið að ná góðum árangri á mótum á Norðurlöndunum undanfarnar vikur. Ekki verður ljóst fyrr en þegar líða fer á janúarmánuð hversu mörgum þeirra tekst að tryggja sér þátttökurétt.