Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Íþróttamaður ársins - Ávarp forseta ÍSÍ

06.01.2014

Forseti Íslands.

Formaður Samtaka íþróttafréttamanna – ágætu íþróttafréttamenn.

Heiðursforseti ÍSÍ.

Heiðursfélagar ÍSÍ.

Fulltrúar Ólympíufjölskyldu ÍSÍ, Valitor, Icelandair, Sjóvá og Íslandsbanka.

Góðir gestir – og umfram allt ágæta afreksfólk.

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til þessarar hátíðar Íþróttamanns ársins – sem nú er haldin í 19. sinn í samstarfi við Samtök íþróttafréttamanna.  Vil ég færa þeim þakkir fyrir gott samstarf og einnig RÚV sem sér um sviðsmynd og útsendingar frá hátíðinni.

Þann 19. júní sl. varð Ólafur E. Rafnsson, forseti ÍSÍ,  bráðkvaddur  í Sviss, þar sem hann gegndi embættisstörfum sem forseti FIBA Europe.  Ólafur var einungis fimmtugur að aldri og okkur öllum mikill harmdauði.  Hann lét eftir sig eiginkonu og þrjú börn, sem eru hér með okkur í kvöld. Ólafur var mikils virtur hérlendis sem og erlendis og nú í nóvember síðstliðnum tók fjölskylda hans við æðstu viðurkenningu Samtaka evrópskra ólympíunefnda – Order of Merit, á aðalfundi samtakanna í Róm.   Þessi góða viðurkenning sýnir glögglega hversu mikils Ólafur var metinn í alþjóðasamfélagi íþróttanna.

Vil ég biðja alla viðstadda að rísa úr sætum og minnast Ólafs með mínútu þögn.

Íþróttastarf á Íslandi er öflugt, eiginlega alveg ótrúlega öflugt. Þátttaka barna og unglinga í íþróttum  er mikil og er í raun með því mesta sem þekkist  í þeim löndum sem við berum okkur saman við.  Íþróttafólkið okkar hefur verið að skila góðum árangri og  stuðningur þjóðarinnar skiptir þar gríðarlegu máli. Ég held að það eigi sér tæplega nokkra hliðstæðu hversu vel þjóðin, fólkið í landinu, stendur að baki okkar íþróttafólki. Þegar vel gengur sést best hvaða hug þjóðin ber til íþróttafólksins . Þá stendur þjóðin sameinuð á bak við okkar fólk. Ég held að það þekkist vart í öðrum löndum að götur tæmist þegar þegar íþróttamenn landsins keppa á alþjóðlegum vettvangi  jafnvel þó ekki sé verið að keppa um verðlaunasæti eins og nýleg dæmi úr fótboltanum sanna. Þannig er það á Íslandi. Íþróttir eru sameiningartákn fyrir íslendinga.  Ég held að það sé hægt að fullyrða að ekkert sameini íslenska þjóð eins og íslenskir íþróttamenn að standa sig á alþjóðavettvangi.

Fyrir ykkur afreksfólkið okkar er þetta gríðarlega verðmætt. Það að hafa þjóðina að baki sér, jafnvel þó hún sé lítil, er ómetanlegt.

Fyrir þjóðina er auðvitað þar með ómetanlegt að  eiga afreksfólk eins og ykkur , sem vekur upp þessar tilfinningar og sameinar þjóðina, gerir hana stolta og fær hana til að fylgjast með af einlægum áhuga. Síðan  má svo segja að þjóðin og afreksfólkið okkar eigi skuld að gjalda öllum sjálfboðaliðunum sem með störfum  sínum í íþróttafélögunum, íþróttabandalögum, héraðssamböndunum og sérsamböndunum láta þetta allt verða að veruleika. Það er okkur hollt á stundum sem þessum að  hafa það í huga að innan íþróttahreyfingarinnar starfa um 25.000 einstaklingar sem sjálfboðaliðar í stjórnum, ráðum og nefndum innan íþróttahreyfingarinnar.  Enn fleiri sjálfboðaliðar koma að skipulagningu á kappleikjum, mótum og foreldrastarfi. Það eru gríðarleg verðmæti  sem liggja í þessu sjálfboðaliðastarfi.

Fyrirfram vil ég óska ykkur sem fá afhentar viðkenningar hér á eftir til hamingju með árangurinn og óska ykkur velfarnaðar í framtíðinni.

Það sem gerist hér á eftir  verður með  hefðbundnum hætti þar sem á fyrri hluta dagskrárinnar verða veittar viðurkenningar til íþróttakarls og –konu hverrar íþróttagreinar innan vébanda ÍSÍ, en svo munu Samtök íþróttafréttamanna taka við og lýsa kjöri íþróttamanns ársins úr hópi þeirra 10 sem tilnefndir hafa verið.

Ykkur öllum óska ég góðs og farsæls komandi árs.