Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Kristín Rós í Heiðurshöll ÍSÍ

06.01.2014

Þann 28. desember sl. var Kristín Rós Hákonardóttir sundkona útnefnd í Heiðurshöll ÍSÍ. 

Kristín Rós Hákonardóttir er fædd 18. júlí 1973.  Hún hefur verið lömuð frá því hún var 18 mánaða en þá fékk hún vírus sem gerði það að verkum að hún varð spastísk vinstra megin. Kristín Rós hóf ung að æfa sund árið 1982 hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík (ÍFR) og lauk keppnisferlinum 22 árum síðar. Þá hafði hún m.a. keppt á fimm heimsmeistaramótum, fimm Ólympíumótum og sett samtals sextíu heimsmet og níu Ólympíumótsmet. Þá var Kristín Rós kjörin Íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra tólf ár í röð, fyrst árið 1995 og seinast árið 2006 en það ár lauk hún keppnisferli sínum með því að vinna til verðlauna á Heimsmeistaramóti fatlaðra í Suður-Afríku og tryggja Íslandi þátttökurétt á Ólympíumótinu sem fram fór í Peking í Kína 2008.

Kristín Rós vakti athygli, bæði hér á landi og erlendis, fyrir einstakan íþróttaferil sinn, enda var hún ungu fólki hvarvetna hvatning og fyrirmynd.  Þannig hlaut hún árið 2004 viðurkenningu frá Eurosport fyrir framúrskarandi árangur á undanförnum árum, en viðurkenningin var veitt í samstarfi sjónvarpsstöðvarinnar Eurosport og Alþjóða Ólympíunefndarinnar, IOC.  Kristín Rós var fyrsti íslenski íþróttamaðurinn sem fær þessa viðurkenningu einnig var hún fyrsti íþróttamaðurinn úr röðum fatlaðra í heiminum sem hlýtur viðurkenninguna.

Kristín Rós býr við fötlun sem hún hefur aldrei látið hamla sér – hvorki í leik eða starfi. Kristín Rós er sannur sigurvegari sem verið hefur landi og þjóð til sóma.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands óskar Kristínu Rós innilega til hamingju með útnefninguna en Kristín Rós er sjöundi einstaklingurinn sem útnefndur er í Heiðurshöll ÍSÍ.  Árið 2012 voru Vilhjálmur Einarsson, Bjarni Friðriksson og Vala Flosadóttir útnefnd og í apríl 2013 voru Sigurjón Pétursson, Jóhannes Jósefsson og Albert Guðmundsson útnefndir.