Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Þjálfaramenntun 3. stigs ÍSÍ - NÝTT

24.01.2014

ÍSÍ býður nú upp á þjálfaramenntun á 3. stigi almenns hluta sem gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar.  3. stig er sjálfstætt framhald 1. og 2. stigs og verður kennt í fjarnámi eins og hin fyrri stig.  Fjarnámið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár og þátttakan afar góð.  Fjölmargir þjálfarar hafa útskrifast með 2. stig undanfarin ár og hafa nú möguleika á að bæta enn frekar við þekkingu sína og réttindi. 

Á 3. stigi koma fimm kennarar að kennslunni.  Þeir eru Örn Ólafsson lektor í íþróttafræðum við HÍ, Dr. Viðar Halldórsson félagsfræðingur, Erlendur Egilsson sálfræðingur, Stefán Ólafsson sjúkraþjálfari MTc,  og Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri.  Meðal þess sem kennt er á 3. stigi er starfsemi líkamans - orkubúskapur, íþróttasálfræði - hugarþjálfun o.fl., skipulag þjálfunar - samspil álags og hvíldar o.fl., samhæfing og tækni, íþróttameiðsl og stjórnun - stjórnunaraðferðir.

Sérgreinahluta námsins sækja þjálfarar til sérsambanda ÍSÍ.  Það nám er í flestum tilfellum ekki í fjarnámi enda eðlilega um verklega þætti þar að ræða ásamt bóklegum hluta. 

Fjarnám 3. stigs hefst mánudaginn 24. febrúar næstkomandi ásamt 2. stigi sem hefst þann sama dag.  Fjarnám 1. stigs hefst viku fyrr, mánudaginn 17. febrúar.  Í fjarnáminu á öllum stigum er spjallsvæði fyrir þátttakendur þar sem miklar og athyglisverðar umræður eiga sér stað og þjálfarar deila þekkingu sinni og reynslu.  Þátttakendur/þjálfarar hafa bent á að þátttaka í umræðunum sé nám út af fyrir sig enda eðlilegt að tugir þjálfara frá mismunandi íþróttagreinum hafi einhverju að deila og jafnframt læra af öðrum.

Nám í þjálfaramenntun er metið til eininga inn í framhaldsskóla landsins.  Námskeiðsgjald á 1. stig er kr. 25.000.- og eru þá öll námskeiðsgögn innifalin í verði og send á heimilisföng þátttakenda.  Þátttökugjald á 2. og 3. stig er kr. 18.000.- og nýtast námskeiðsgögn/bækur frá 1. stigi áfram á þeim stigum.

Skráning í fjarnám allra stiga er á namskeid@isi.is eða í síma 514.4000.  Taka þarf fram á hvaða stig er verið að skrá og gefa upp fullt nafn, kennitölu, heimilisfang, netfang og símanúmer.

Allar frekari upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ gefur Viðar Sigurjónsson Skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri í síma 460-1467 og 863-1399 eða á vidar@isi.is