Sochi 2014 – Breyting á íslenska hópnum
María Guðmundsdóttir keppandi í alpagreinum skíðaíþrótta slasaðist á móti í Þýskalandi í gær. Ljóst er að hún mun ekki geta keppt á Vetrarólympíuleikunum í Sochi sem hefjast þann 7. febrúar nk. og hefur Skíðasamband Íslands (SKÍ) óskað formlega eftir því við ÍSÍ að varamaður keppi í hennar stað.
SKÍ tilnefndi Erlu Ásgeirsdóttur sem varamann á leikana og hefur Erla verið að standa sig vel að undanförnu. Hún náði viðmiðum Alþjóðaskíðasambandsins (FIS) varðandi þátttökurétt á leikana og í fyrradag náði hún sínum besta árangri til þessa á móti í Kongsberg í Noregi.
Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur samþykkt beiðni Skíðasambands Íslands og mun óska eftir því við Alþjóðaólympíunefndina (IOC) og Alþjóðaskíðasambandið (FIS) að Erla fái að keppa á leikunum.
Jafnframt er Maríu Guðmundsdóttur óskað góðs bata en hennar verður sárt saknað í Sochi.
Á myndinni má sjá Erlu Ásgeirsdóttur, verðandi Ólympíufara.