Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Norrænn fundur um þjálfaramenntun

21.03.2014

Viðar Sigurjónsson Skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri sótti fund um þjálfaramenntun með forystumönnum Norðurlandanna í þessum fræðum í Osló 11.-13. mars síðastliðinn.  Þessi hópur sem skipaður er forystumönnum í þessum málaflokki frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hittist einu sinni til tvisvar á ári og ræðir ýmis mál sem tengjast þjálfaramenntun, menntakerfum Norðurlandanna og öllu því nýjasta hverju sinni.  Á þennan fund fengum við góðan gest, framkvæmdastjóra ICCE, Ladislav Petrovic sem kynnti starfsemi ICCE og tók jafnframt fullan þátt í öllum umræðum.  ICCE er skammstöfun á International Council for Coaching Excellence.  Um er að ræða alheimssamtök sem vinna m.a. að þróun og auknum gæðum í íþróttaþjálfun.  Í Norræna hópnum er einnig stjórnarmaður í ICCE, Kirsi Hämäläinen frá Finnlandi. 

Menntakerfi Ólympíusambandanna á Norðurlöndunum eru um markt lík og það auðveldar samanburð og þróun í þessum fræðum.  ÍSÍ býður upp á þrjú stig menntunar sem teljast til framhaldsskólastigs og framundan er frekari þróun námsins upp á háskólastig í samvinnu við í.þ.m. HÍ og HR.  Fjarnám ÍSÍ á stigunum þremur stendur nú yfir með þátttöku um 50 nemenda sem koma frá fjölmörgum íþróttagreinum og eru búsettir víða um land.  Sérsambönd ÍSÍ halda svo utan um sérgreinaþátt námsins á hverju stigi.  Allir þjálfarar fá samræmt þjálfaraskírteini sem segir til um námsárangurinn og réttindi hvers stigs fyrir sig.

Á myndinni sem tekin er í fundarherbergi á Ulleval Stadion í Osló má sjá hluta Norræna hópsins auk framkvæmdastjóra ICCE.