Afreksstyrkir og lyfjaeftirlit
Í ljósi umræðu um styrkveitingu ÍSÍ til Kraftlyftingasambands Íslands vegna íþróttamanns sem er á lista alþjóðasambands vegna brots á lyfjalögum vill Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) vekja athygli á eftirfarandi:
- Innan ÍSÍ eru fjölmargar einingar sem vinna eftir lögum og reglugerðum ÍSÍ.
- Þrír málaflokkar gæta meira sjálfstæðis og trúnaðar en aðrir og eru það dómsmál íþróttahreyfingarinnar, lyfjaeftirlitsmál og Afrekssjóður ÍSÍ.
- Þannig eru umsóknir til Afrekssjóðs ÍSÍ ræddar á lokuðum fundum stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ áður en tillögur til styrkveitinga eru bornar upp til samþykktar hjá framkvæmdastjórn ÍSÍ.
- Lyfjaeftirlitsmál eru á sama hátt í umræðu fámenns hóps sem hefur umsjón með þeim málaflokki og eru þau málefni ekki til umræðu hjá framkvæmdastjórn ÍSÍ.
- Í lögum ÍSÍ um lyfjamál eru ákvæði um trúnaðarskyldur sem og málsmeðferðir.
- Þegar brot á alþjóðlegum lyfjalögum á sér stað fer í gang ferli sem er nánar tilgreint í lögum um lyfjaeftirlit. Afrekssjóður ÍSÍ kemur hvergi að því ferli, né framkvæmdastjórn ÍSÍ.
- Í Starfsreglum Afrekssjóðs ÍSÍ sem og þeim samningum sem gerðir eru við sérsambönd og íþróttamenn er fjallað um kröfur vegna lyfjaeftirlits og styrkveitingar. Þar er ítarlega fjallað um kröfur á endurgreiðslu styrkja sem og niðurfellingar á styrkjum.
- Umsóknarfrestur til Afrekssjóðs ÍSÍ vegna styrkja fyrir árið 2015 var 30. nóvember 2014.
- Tilkynnt var um styrkveitingar föstudaginn 23. janúar 2015.
- Styrkir eru veittir til sérsambanda ÍSÍ en ekki beint til íþróttamanna. Styrkir eru þó í mörgum tilfellum veittir vegna verkefna einstaka íþróttamanna og byggir slík úthlutun á árangri íþróttamanna.
- Almennt eru brot á lyfjalögum miðuð við þann dag er viðkomandi lyfjapróf var framkvæmt og á birting á upplýsingum sér stað þegar viðkomandi mál hefur fengið meðferð samkvæmt lögum og reglugerðum.
Í starfsreglum Afrekssjóðs ÍSÍ eða lögum ÍSÍ um lyfjamál er hvergi fjallað um gagnkvæma upplýsingaskyldu þessara eininga, enda væri slíkt brot á þeim trúnaði sem gildir um málefni þessara eininga. Ekki hefur áður komið fyrir að brot á lyfjalögum eigi sér stað af aðila sem er tilgreindur í umsóknum sérsambands til Afrekssjóðs ÍSÍ. Starfsreglur Afrekssjóðs ÍSÍ og lög ÍSÍ um lyfjamál kveða á um að greiðslur eða styrkveitingar til sérsambands vegna verkefna slíks aðila munu verða felldar niður.