Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
17

100 dagar til Evrópuleika í Baku

04.03.2015

Fyrstu Evrópuleikarnir fara fram í Baku í Azerbaijan dagana 12. til 28. júní 2015. Í dag eru 100 dagar til leika og haldið verður upp á það um alla Evrópu. Evrópskar ólympíunefndir vekja athygli á deginum hver með sínum hætti. Staðan er misjöfn milli greina hvort búið sé að velja þátttakendur eða ekki. Ljóst er að Íslendingar munu að minnsta kosti eiga keppendur í fimleikum, sundi, skotfimi og skylmingum. Það kemur í ljós á næstu vikum hverjum, og úr hvaða greinum, tekst að tryggja sér þátttökurétt á leikunum.

„Fyrstu Evrópuleikarnir verða án efa glæsilegur viðburður. Samband evrópskra Ólympíunefnda hefur unnið mikið starf á stuttum tíma og gestgjafar hafa byggt stórglæsileg mannvirki fyrir þennan viðburð“ segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. „Með þessum leikum eignast Evrópa sína álfuleika, líkt og aðrar heimsálfur, og í framtíðinni verður þessi viðburður án efa vettvangur besta íþróttafólks Evrópu. Nú þegar 100 dagar eru í að leikarnir verða að veruleika ber að hrósa EOC og gestgjöfunum í Azerbaijan fyrir að hafa ýtt þessu verkefni úr vör og búa þannig til íþróttaviðburð sem á eftir að skipa sér sess með þeim stærstu í heimi.“ 

„Við bindum vonir við að eiga um 15 íslenska keppendur á leikunum, en nú þegar hafa 10 keppendur tryggt sér keppnisrétt“ segir Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ. „Undirbúningur okkar íþróttamanna er hafinn fyrir löngu og fyrir suma þeirra verða þessir leikar hluti af enn stærra verkefni sem er að tryggja sér keppnisrétt á Ólympíuleikana í Ríó á næsta ári. Ekki er langt síðan Evrópumeistarmótið í júdó varð hluti af leikunum í Baku og mun það tryggja að bestu júdómenn Evrópu verði á meðal keppenda. Í þeirri grein, sem og mörgum öðrum, er það staðan á heimslista nú á vormánuðum sem tryggir keppnisréttinn á leikunum og það er okkar von að íslenskt íþróttafólk verði á réttum stöðum á þeim listum.“

Staðreyndir

Ákveðið var á aðalfundi evrópskra ólympíunefnda í desember árið 2012 að halda leikana í Baku.

Keppni stendur yfir í 17 daga og búist er við meira en 6000 íþróttamönnum frá Ólympíuþjóðum Evrópu.

Keppt verður í 20 íþróttagreinum, þar á meðal í greinum sem ekki hefur verið keppt í áður á stórmóti sem þessu eins og 3x3 körfuknattleik, strandfótbolta, karate og sambó. Hægt er að sjá meira um greinarnar hér

Í tólf íþróttagreinum geta keppendur tryggt sig á Ólympíuleikana í Ríó 2016.

18 íþróttamannvirki verða notuð á leikunum, þar á meðal nýleg mannvirki sem hýsa fimleika, BMX, sundgreinar og skotíþróttir. Byggður var 68.000 sæta völlur fyrir frjálsíþróttir og setningar- og lokahátíð.

Samtals verða veittir 253 verðlaunapeningar.

Í þorpi íþróttafólks eru 1042 íbúðir og 7351 rúm.

Gert er ráð fyrir um 80.000 máltíðum í einu stærsta eldhúsi Evrópu.

Til að koma þátttakendum á milli staða meðan á Evrópuleikunum stendur þarf að nota 330 rútur og 1970 bílstjóra sem keyra meira en 12 milljón km.

Frekari upplýsingar má finna á http://baku2015.org/en/

Myndir með frétt