Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Blossi í heimsókn í Njarðvíkurskóla

16.03.2015

Í dag heimsótti Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna 2015, Njarðvíkurskóla, ásamt föruneyti frá ÍSÍ, en 5.H.G. í Njarðvíkurskóla var með sigurnafnið Blossi í nafnasamkeppni um nafn á lukkudýri Smáþjóðaleikanna 2015 sem ÍSÍ efndi til í janúar.

Þátttökurétt áttu allir 4.—7. bekkir í grunnskólum landsins. Hver bekkur mátti skila einu nafni. Keppninni bárust 140 nöfn. Hugmyndaflug nemenda var mikið og rökstuðningurinn sem fylgdi nöfnunum mjög skemmtilegur. Fimm manna nefnd var skipuð til þess að vinna úr innsendum tillögum og velja nafn sem hentar lukkudýrinu. Nafn lukkudýrsins var tilkynnt þann 21. febrúar, þegar að 100 dagar voru til leika, í tengslum við úrslitaleiki í bikarkeppni KKÍ í Laugardalshöll. Tveir bekkir sendu inn tillögu með sigurnafninu, 6. bekkur í Vesturbæjarskóla og 5.H.G. í Njarðvíkurskóla, og því varð að draga út sigurvegarann. Njarðvíkurskóli var dreginn út af lukkudýrinu sjálfu.

Allir nemendur 5.H.G. fengu lítinn Blossa til eignar, sem Blossi sjálfur afhenti þeim ásamt framkvæmdastjóra ÍSÍ Líneyju Rut Halldórsdóttur. Skólinn fékk einnig í verðlaun tölvubúnað frá Advania að verðmæti 100.000 kr. Blossi hitti flestalla nemendur skólans í 1.-7. bekk í dag og má með sanni segja að heimsóknin hafi vakið lukku.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þakkar nemendum og kennurum þeirra skóla sem tóku þátt kærlega fyrir þátttökuna í nafnasamkeppni á lukkudýri Smáþjóðaleikanna.

Fleiri myndir frá heimsókn Blossa í Njarðvíkurskóla er að finna hér neðar á heimasíðunni.