Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Ráðstefnan Erum við á réttri leið?

20.04.2015

Ráðstefnan „Erum við á réttri leið?” um íþróttir barna og unglinga var haldin í Laugarásbíói síðastliðinn föstudag.  Fyrirlestrarnir voru áhugaverðir og mikill samhljómur í nálgun á íþróttastarfi fyrir börn. Í máli fyrirlesara var greinilegt að þarfir barna voru í fyrirrúmi, lögð áhersla á að þeim líði vel, íþróttir séu fjölbreyttar og skemmtilegar og íþróttaþátttaka sé fyrir alla.  Hið mikla foreldrastarf sem viðgengst í íþróttum var lofað enda foreldrar ómissandi hlekkur í íþróttastarfi hjá börnum og unglingum og aðkoma þeirra að verkefnum fjölbreytt. Miklar kröfur eru gerðar til íþróttastarfs í félögunum, samhliða aukinni þátttöku og hefur þeim meðal annars verið mætt með fleiri menntuðum þjálfurum og aukinni útsjónarsemi í skipulagi æfinga. Þá kom fram að forvarnargildi íþrótta á Íslandi er óumdeilanlegt og eftir því sem börn og unglingar æfa meira því betur standa þau sig í námi, líður betur andlega og eru ánægðari með sig. Ráðstefnan var send beint út á netinu, en hún var einnig tekin upp og munu upptökurnar verða aðgengilegar á heimasíðunni á næstunni. 

Endurskoðuð stefna um íþróttir barna og unglinga var samþykkt á 72. Íþróttaþingi ÍSÍ nú um helgina án veigamikilla breytinga. Aldursviðmiði var breytt og er nú miðað við sjálfræðisaldur eða 18 í stað 19 í gömlu stefnunni. Meiri áhersla er lögð á að íþróttir eigi að vera fyrir alla, þær þurfi að vera fjölbreyttar og skemmtilegar, leikurinn sé í fyrirrúmi og félagslega þættinum gerð góð skil. Einnig er gert ráð fyrir að mat á árangri sé ekki bara frammistaða í íþróttinni, árangur sé einnig mældur í ánægðum iðkendum og þátttökutölum/brottfallstölum.