Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18

Risafloti bíla afhentur ÍSÍ vegna Smáþjóðaleikanna

29.05.2015

Bílaumboðið Askja umboðsaðili Mercedes-Benz og Bílaleiga Akureyrar umboðsaðili Europcar á Íslandi eru meðal gullstyrktaraðila Smáþjóðaleikanna sem haldnir verða á Íslandi 1.-6. júní nk. Fyrstu þátttakendur koma til landsins um helgina en um 800 þátttakendur frá níu löndum taka þátt á leikunum sem nú eru haldnir í 16 sinn.

,,Bílaleiga Akureyrar í samstarfi við Bílaumboðið Öskju hafa tekið að sér að sjá um bílamál leikanna en alls verða notaðir um 70 Mercedes-Benz bifreiðar til að flytja þátttakendur á milli keppnissvæða, hótela, flugvallar og sinna annarri þjónustu sem þörf er á á meðan á leikunum stendur,” segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar.

Bifreiðarnar eru af mörgum gerðum Mercedes-Benz allt frá smáum fólksbílum eins og A-Class og B-Class upp í 9 manna farþegabíla eins og Vito og V-Class. Þá eru væntanlegir þjóðhöfðingjar frá þátttökuþjóðum og má þar meðal annars nefna Albert Prins af Mónako og við flutning þeirra eru notaðar Mercedes-Benz viðhafnarbifreiðar.

,, Við erum mjög stolt af því að styðja við þennan stórviðburð sem Smáþjóðaleikarnir eru. Leikarnir eru frábært sameiningartákn smáþjóðanna í Evrópu þar sem þeirra helstu afreksmenn munu etja kappi með íþróttaandann að leiðarljósi. Mercedes-Benz býður upp á gríðarlega breiða línu bíla og því var það auðsótt í samstarfi við þýska lúxusbílaframleiðandann að koma þessu saman,” segir Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Bílaumboðsins Öskju.

,,Smáþjóðaleikarnir 2015 eru stór og mikilvægur viðburður og stærsta verkefni sem ÍSÍ hefur tekið að sér. Það er því mikilvægt að fá stuðning frá öflugum fyrirtækjum eins og Öskju og Bílaleigu Akureyrar sem og erlendum stórfyrirtækjum eins og Mercedes-Benz og Europcar," segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Myndatexti:

Óskar Örn Guðbrandsson, verkefnastjóri ÍSÍ, Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, við Mercedes-Benz bíla sem notaðir verða á Smáþjóðaleikunum.

Myndir með frétt