Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Íþróttahreyfingin með í að minnka mengun í heiminum

11.12.2015

Nú fer fram ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í París, en hún hófst 30. nóvember og stendur til 11. desember. Fulltrúar frá Alþjóðaólympíunefndinni sitja ráðstefnuna, en áætlað er að um 45 þúsund fulltrúar hvaðanæva að mæti. Ráðstefnan er ein sú stærsta sem haldin hefur verið um loftslagsbreytingar. 

Forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, Thomas Bach, hélt erindi á ráðstefnunni þar sem hann ítrekaði að íþróttahreyfingin leggi sig alla fram í því aðkallandi verkefni að minnka mengun í heiminum. Á Ólympíuleikunum í London 2012 spöruðust um 40 þúsund tonn af koltvísýringi vegna ákveðinna umhverfisvænna staðla sem gestgjafarnir fylgdu. Þessir staðlar sem notaðir voru í London eru nú orðnir að alþjóðlegum stöðlum fyrir heimsviðburði tengda íþróttum. Báðar borgirnar Ríó og Tókýó, sem munu halda Ólympíuleikana 2016 og 2020, fylgja þessum stöðlum í skipulagningu leikanna. Bach lagði einnig áherslu á það að sú borg sem verður valin til þess að halda Ólympíuleikana árið 2024 verði að vera með umhverfisvæna áætlun fyrir viðburðinn í umsókn sinni. 

París, Los Angeles, Búdapest og Róm eru þær fjórar borgir sem keppast um að halda Ólympíuleikana 2024. Hamborg dró umsókn sína til baka á dögunum, eftir að atkvæðagreiðsla borgarbúa leiddi í ljós að ekki er áhugi fyrir því að halda leikana í borginni.