Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

Tímamótum fagnað í Laugardalshöll

14.12.2015

Þann 4. desember voru 50 ár liðin frá því Laugardalshöll var tekin til notkunar. Laugardalshöllin var teiknuð af arkitektunum Gísla Halldórssyni heiðursforseta ÍSÍ og Skarphéðni Jóhannessyni og reist af Reykjavíkurborg og Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Sem kunnugt er þá var Gísli Halldórsson forseti ÍSÍ á árunum 1962-1980 og formaður Ólympíunefndar Íslands 1951-1994, ásamt því að gegna ýmsum öðrum trúnaðarstörfum tengdum íþróttahreyfingunni.
Fyrsti íþróttaleikurinn fór fram í höllinni 4. desember 1965 en þar áttust við úrvalslið Reykjavíkur og Baník Karviná frá Tékkóslóvakíu í handknattleik. Eins og fram kemur í samantekt Sigurgeirs Guðmannssonar fyrsta starfsmanns Laugardalshallarinnar og má lesa með því að smella hér þá var bygging hallarinnar mikið þrekvirki á sínum tíma og margir sem lögðu þar hönd á plóg, m.a. íþróttafólk í Reykjavík.

Starfsfólk Laugardalshallarinnar bauð vinum og velunnurum hallarinnar til kaffisamsætis í Laugardalshöll í tilefni 50 ára afmælisins. Hafsteinn Pálsson og Lilja Sigurðardóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ afhentu Óla Öder, framkvæmdastjóra hallarinnar áletraðan platta með þökkum fyrir hálfrar aldar gott samstarf ÍSÍ og Laugardalshallarinnar.  ÍSÍ hefur ætíð átt mikil samskipti við starfsfólk hallarinnar og er þess skemmst að minnast að höfuðstöðvar Smáþjóðaleikanna 2015 sem fram fóru í júní síðastliðnum voru í Laugardalshöll. Þar var hjarta leikanna og ómetanlegt fyrir ÍSÍ að hafa aðgang að svo góðri og fjölbreyttri aðstöðu sem fyrirfinnst í höllinni, bæði við undirbúning og framkvæmd leikanna.

Á myndinni sem hér fylgir og tekin var í kaffisamsætinu eru frá vinstri:  Hafsteinn Pálsson, Óli Öder framkvæmdastjóri Laugardalshallarinnar og Lilja Sigurðardóttir.