Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Breytingar í stjórn HSK

17.03.2016

Ársþing Héraðssambandsins Skarphéðins fór fram á Selfossi laugardaginn 12. mars síðastliðinn. Þinghaldið gekk vel og var góð mæting á þingið. Góðar umræður voru í nefndum og samþykkti þingið rúmlega 20 tillögur. Breytingar urðu á stjórn sambandsins. Örn Guðnason varaformaður gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Helgi S. Haraldsson kosinn varaformaður. Helgi gegndi áður embætti ritara stjórnar. Einnig lét Helga Kolbeinsdóttir af störfum sem meðstjórnandi og var Rut Stefánsdóttir kosin í hennar stað. Anný Ingimarsdóttir tók við sem ritari stjórnar. Baldur Gauti Tryggvason og Olga Bjarnadóttir koma ný inn í varastjórn sambandsins en Gestur Einarsson var þar fyrir. Guðríður Aadnegard er áfram sem formaður sambandsins. 

Íþróttafólk í þeim 20 íþróttagreinum sem stundaðar eru innan sambandsins var heiðrað og úr þeirra hópi var Ragnar Ágúst Nathanaelsson körfuknattleiksmaður úr Þór Þorlákshöfn valinn Íþróttamaður HSK 2015. Sigríður Anna Guðjónsdóttir Selfossi og Þuríður Ingvarsdóttir Selfossi voru sæmdar silfurmerki HSK. Íþróttafélagið Dímon var stigahæsta félagið, Frjálsíþróttaráð HSK fékk unglingabikar HSK og fimleikadeild Umf. Selfoss hlaut foreldrabikar HSK. Þá var Guðmundur Kr. Jónsson valinn öðlingur ársins.

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ var fulltrúi ÍSÍ á þinginu og sæmdi Guðmund Jónasson gjaldkera HSK Silfurmerki ÍSÍ við þetta tækifæri.

Vegleg 88 blaðsíðna ársskýrsla kom út á héraðsþinginu. Hana má nálgast á heimasíðu HSK, www.hsk.is, undir liðnum fundargerðir. Myndir af þinginu má einnig sjá á heimasíðu sambandsins.

Myndir með frétt