Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

Afreksstefnur sérsambanda

19.04.2016

Á þessum tíma árs fara fram fjölmörg sérsambandsþing og eru helstu ákvarðanir fyrir viðkomandi íþróttagreinar teknar á þeim þingum.  Afreks- og Ólympíusvið ÍSÍ hefur á undanförnum árum fengið drög að mörgum afreksstefnum til yfirlestrar og gefið þeim umsögn þannig að hægt sé að aðlaga þær að þeim leiðbeinandi ramma sem settur hefur verið um afreksstefnur sérsambanda ÍSÍ.

Gefnar hafa verið út ítarlegar leiðbeiningar varðandi mótun afreksstefna og má finna þær á heimasíðu ÍSÍ, þar sem einnig má finna tengla á afreksstefnur sérsambanda ÍSÍ.

Að mörgu er að hyggja við stefnumótun og gerð afreksstefnu fyrir sérsambönd ÍSÍ.    Afreksstefnan er í raun leiðin að langtímamarkmiðum sérsambands og tekur á þeim þáttum sem snúa að afreksstarfi í viðkomandi íþróttagrein.  Þau geta verið jafnmisjöfn og sérsamböndin eru mörg. 

Stefnan ákvarðar þá leið sem sérsambandið og aðilar þess vill starfa eftir og hvernig nýta á auðlindir sambandsins til að ná settum markmiðum.  Með auðlindum er jafnt átt við fjármuni, aðstöðu, búnað og mannauð viðkomandi íþróttagreinar.  Í upphafi má segja að stefnan sé oftast einföld og umfang hennar ræðst mikið af umfangi og stærð viðkomandi sérsambands.  Ef sérsambandið er með margar ólíkar íþróttagreinar innan sinna vébanda er eðlilegt að umfang stefnunnar sé meira en hjá þeim samböndum þar sem um afmarkaðra íþróttastarf er að ræða.

Til að sátt sé um stefnuna meðal þeirra sem koma að starfinu er nauðsynlegt að fulltrúar félaga og deilda fái að fjalla um stefnuna og þau markmið og leiðir sem þar eru tilgreind.  Slíkur vettvangur er sérsambandsþing og/eða formannafundur í viðkomandi íþróttagrein.  Stefnan þarf einnig að taka mið af þeirri fjárhagsáætlun sem samþykkt er á sérsambandsþingum og því er mikilvægt að tengja þessa þætti saman, s.s. með samþykkt eða staðfestingu á þingi.  Í dag eiga öll sérsambönd sína heimasíðu og miðla þar upplýsingum um starfið.  Æskilegt er að allar samþykktar stefnur sérsambands séu aðgengilegar á slíkri síðu sem og lög og reglugerðir. 

Þá ber að nefna að styrkir Afrekssjóðs ÍSÍ eru háðir því að afreksstefna sé í gildi hjá viðkomandi sérsambandi.  Framkvæmdastjórn ÍSÍ getur gefið undanþágu frá því hafi tímasett áætlun um mótun afreksstefnu borist frá viðkomandi sérsambandi og að afreksstefna hljóti samþykki á sérsambandsþingi nú á vormánuðum. 

Í ljósi þessa hefur Afreks- og Ólympíusvið ÍSÍ óskað eftir því að fá sendar nýsamþykktar afreksstefnur að loknum sérsambandsþingum, sem og upplýsingar um þá umfjöllun sem stefnan fékk á þinginu.  Þá hefur jafnframt verið lögð áhersla á að viðkomandi sérsambandi hafi stefnuna aðgengilega á heimasíðu sinni og að tengill á viðkomandi stefnu/skjal/síðu sé sendur til Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ þannig að hægt sé að tryggja að upplýsingar sé réttar á heimasíðu ÍSÍ. 

Þau sérsambönd sem liggja með drög að afreksstefnu sem bera á upp á komandi þingi hafa jafnframt verið hvött til að vera í  sambandi við starfsmenn Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ vegna umsagnar.

Frekari upplýsingar um afreksstefnur sérsambanda og mótun þeirra má finna hér, á heimasíðu ÍSÍ.