Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Ríó 2016 - Íslenski hópurinn í Peak

11.07.2016Í dag fékk ÍSÍ í hús búnað fyrir Ólympíuleikana í Ríó 2016, en þátttakendur í ár munu klæðast fötum og skóm frá kínverska íþróttavörufyrirtækinu Peak. Um 10 þjóðir munu notast við vörur frá því fyrirtæki, þar á meðal eru keppendur frá Nýja-Sjálandi, Úkraínu, Slóveníu og Kýpur.

Peak Sport Product var stofnað 1989 og hefur lagt mikla áherslu á fatnað og skó fyrir körfuknattleik en fyrirtækið er með um 6.000 söluaðila í Kína og fer sölustöðum fjölgandi um allan heim. Vörulína þeirra fer jafnframt stækkandi og inniheldur fatnað fyrir aðrar íþróttagreinar, eins og aðrar boltagreinar, tennis, hlaup og almenna líkamsrækt. Fatnaður íslenska hópsins er bæði sérhannaður með þörf hópsins í huga sem og litaval, en einnig er hluti fatnaðar úr þeim vörulínum sem til eru hjá fyrirtækinu.

Á Ólympíuleikunum gilda mjög strangar reglur varðandi fatnað og stærð merkinga. Þannig er allur fatnaður án auglýsinga og eingöngu með einu litlu merki framleiðanda á hverri flík. Sérpanta þarf því allan fatnað með löngum fyrirvara og gera ráð fyrir öllum þeim keppendum sem eiga möguleika á þátttöku sem og fylgdarmönnum þeirra.

Til að gera sér í hugarlund umfang þess búnaður sem barst til ÍSÍ í dag er hægt að upplýsa að um níu vörubretti er að ræða, eða um 1,2 tonn af vörum. Örvar Ólafsson, starfsmaður á Afreks- og Ólympíusviði ÍSÍ, var í óða önn við að taka upp úr kössunum og raða í dag og verður líklega upptekinn við það næstu daga.

Á næstu dögum verður endanlega ljóst hvernig íslenski hópurinn á Ólympíuleikunum í Ríó verður skipaður, en leikarnir verða settir á Maracana vellinum þann 5. ágúst nk.

Myndir með frétt