Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Ríó 2016 - Fyrstu Íslendingarnir mættir í ólympíuþorpið

29.07.2016

Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ og aðalfararstjóri íslenska hópsins kom til Ríó fyrir nokkrum dögum. Eitt af fyrstu verkum hans í ólympíuþorpinu var að merkja íbúðir Íslands, en hver þjóð merkir sínar íbúðir með fánum og borðum. Að sögn Andra lítur þorpið vel út og lítið um vandamál hjá Íslendingunum hvað varðar aðbúnað, þótt aðrar þjóðir hafi það verr, því ekki eru allar íbúðir íþróttamanna tilbúnar. Örvar Ólafsson starfsmaður á Afreks- og Ólympíusviði fór utan í fyrradag og njóta þeir félagar því félagsskapar hvor annars. Í ólympíuþorpinu er ýmislegt hægt að gera sér til dægrastyttingar en fyrir utan blokkir þjóðanna eru til dæmis sundlaugar.

Fyrsti íslenski keppandinn er væntanlegur í ólympíuþorpið þann 31. júlí en það er sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir. Irina Sazonova fimleikakona kemur 1. ágúst, Anton Sveinn sundmaður 2. ágúst og Eygló Ósk sundkona 3. ágúst. Frjálsíþróttakonurnar Ásdís Hjálmsdóttir og Aníta Hinriksdóttir mæta í þorpið þann 4. ágúst í fylgd Þormóðar Árna júdókappa. Guðni Valur kringlukastari kemur síðan síðastur þann 9. ágúst.

Ísland er annars staðsett á frábærum stað í Ólympíuþorpinu í þyrpingu með nokkrum af hinum Norðurlöndunum, þ.e. Svíum, Dönum og Finnum.


 

Myndir með frétt