Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Verðlaun afhent frá Lúxemborg 2013

11.10.2016

Á dögunum fór fram uppskeruhátíð FRÍ á Hótel Cabin í Reykjavík. Þar var verið að fagna árangri sem náðist á undangengnu keppnistímabili og horft fram á veginn. Við það tækifæri fór fram verðlaunaafhending vegna Smáþjóðaleikanna í Lúxemborg 2013. Á leikunum féll kýpverskur íþróttamaður á lyfjaprófi. Það varð til þess að íslenska sveitin í 4x100 metra boðhlaupi karla færðist upp um sæti úr öðru sæti í það fyrsta og Kolbeinn Höður Gunnarsson í 100 metra hlaupi úr þriðja sæti í annað sæti. Garðar Svansson sem sæti á í stjórn Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ afhenti verðlaunin. Boðhlaupssveitina skipuðu þeir Kolbeinn Höður Gunnarsson, Ívar Kristinn Jasonarson, Þorsteinn Ingvarsson og Kristinn Torfason.

Á myndinni má sjá frá vinstri Ragnheiði Ólafsdóttur þjálfara sem tók við verðlaununum fyrir hönd Kolbeins Haðar, Ívar Kristinn Jasonarson, Kristinn Torfason og þjálfarann Þráinn Hafsteinsson sem veitti verðlaunum Þorsteins Ingvarssonar viðtöku. Með þeim á myndinni er Garðar Svansson.