Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Forvarnardagurinn 2016

12.10.2016

Forvarnardagurinn 2016 var haldinn í dag, miðvikudaginn 12. október. Í tilefni af deginum heimsótti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, þrjá skóla; Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, Kvennaskólann í Reykjavík og Garðaskóla í Garðabæ. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, fór með forsetanum í skólana ásamt föruneyti frá ÍSÍ.

Forsetinn ræddi við nemendur þessarra þriggja skóla um þær þrjár meginreglur sem boðskapur Forvarnardagsins felur í sér: Að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, að verja klukkustund á dag með fjölskyldu og að bíða sem lengst með að neyta áfengis. Forsetinn heimsótti kennslustofur í ýmsum greinum og svaraði fjölmörgum fyrirspurnum nemenda um margvísleg málefni. Það má með sanni segja að forsetinn hafi náð vel til nemenda, en hann deildi sinni eigin reynslu og lífsviðhorfum með þeim.

Í ár er sjónum beint að nýjum rannsóknum en niðurstöður þeirra benda til að ungmenni séu í einhverju mæli farin að nota rafrettur. Ungmenni sem hefja notkun rafretta eru líklegri en þau sem ekki nota rafrettur til að byrja að nota hefðbundnar tóbaks sígarettur sem og að neyta annarra vímuefna sem eykur líkur á annars konar frávikshegðun. Hins vegar eru lög og reglur um sölu og dreifingu rafretta af skornum skammti hér á landi og hefur Embætti landlæknis t.a.m. lýst yfir áhyggjum af þeirri óvissu sem það skapar fyrir fræðslu og forvarnastarf í þessum efnum. Ef tekið er mið af rannsóknum má hins vegar segja að engar haldbærar ástæður séu fyrir því að sýna neyslu á rafrettum meðal barna og unglinga einhverja linkind. Foreldrar og forvarnaraðilar ættu að afla sér þekkingar um bæði líkamlega og félagslega skaðsemi rafretta.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis. Lesa má meira um verkefnið á vefsíðu forvarnardagsins, sem er www.forvarnardagur.is

Nokkrar myndir frá deginum fylgja fréttinni, en fleiri myndir má sjá á myndasíðu ÍSÍ.

Myndir með frétt