Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

14

Ársþing EOC í Minsk

26.10.2016

Ársþing Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC) var haldið í Minsk dagana 20.-21. október sl. Þingið sóttu Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ. Á þinginu var meðal annars ákveðið að næstu Evrópuleikar verði haldnir í Minsk árið 2019, að Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar 2021 verði haldin í Vuokatti í Finnlandi og að Sumarólympíuhátið Evrópuæskunnar 2021 verði haldin í Košice í Slóvakíu.

Nýtt merki EOC var kynnt á ársþinginu en merkið er formað af 50 ólíkum mósaík bútum sem endurspegla aðildarríkin 50. Formaður EYOF Commission kynnti 25 ára sögu Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar í máli og myndum. Samþykkt var að afhenda Emmanouil Karalis, 17 ára stangarstökkvara frá Grikklandi, Piotr Nurowski verðlaunin sem Besti evrópski ungi íþróttamaður sumarsins 2016.

Á þinginu kom m.a. fram að evrópskt íþróttafólk vann 48% allra verðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó.

Líney Rut, sem er formaður eftirlitsnefndar EOC vegna Vetrarólympíuhátíðar Evrópuæskunnar 2017, flutti skýrslu um störf nefndarinnar og stöðu mála varðandi leikana. Myndin er tekin við það tækifæri.

Næsta ársþing EOC verður í Zagreb í Króatíu árið 2017.