Illugi Gunnarsson og Ómar Einarsson sæmdir Gullmerki ÍSÍ
Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti á fundi sínum í gær, 8. desember, að sæma Illuga Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Ómar Einarsson framkvæmdastjóra Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar Gullmerki ÍSÍ fyrir þeirra góðu störf í þágu íþróttahreyfingarinnar.
Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ afhenti Illuga og Ómari heiðursviðurkenningarnar í móttöku sem ÍSÍ hélt í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í gærkvöldi. Við það sama tækifæri var sérsamböndum þeirra íþróttagreina sem keppt var í á Smáþjóðaleikunum 2015 afhent eintak af verðlaunapeningum leikanna í fallegum ramma, sem gjöf til minningar um leikana.
Samskonar gjafir voru afhentar fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis, Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur sem og Helgu Steinunni Guðmundsdóttur formanni Skipulagsnefndar leikanna og Óskari Erni Guðbrandssyni framkvæmdastjóra leikanna.
Í móttökunni var sýnt stutt myndband sem sýndi nokkra af hápunktum Smáþjóðaleikanna 2015 en verkefnið er það umfangsmesta sem íþróttahreyfingin á Íslandi hefur tekið að sér til þessa.