Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Fræðandi ráðstefna um lyfjamál

27.01.2017Í gær fór fram ráðstefna um lyfjamál og fæðubótarefni í Háskólanum í Reykjavík. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Íþróttabandalag Reykjavíkur stóðu fyrir ráðstefnunni, í samstarfi við HR, og var ráðstefnan hluti af WOW Reykjavik International Games 2017.

Gústaf Adólf Hjaltason formaður skipulagsnefndar RIG setti ráðstefnuna. Adolf Ingi Erlingsson var ráðstefnustjóri. Þrír erlendir fyrirlesarar fluttu erindi á ráðstefnunni. Fyrstur var Dr. Ron Maughan frá Skotlandi, sérfræðingur í íþróttanæringarfræði og fæðubótarefnum. Ron hefur leitt þennan málaflokk hjá Alþjóðaólympíunefndinni (IOC) frá árinu 2002 og hefur mikla reynslu á þessu sviði. Fram kom í erindi Ron að gæðastjórnun og gæðaeftirlit með fæðubótarefnum er ekki eins gott og það ætti að vera. Rannsóknir hafi sýnt að fæðubótarefni innihaldi stundum efni á bannlista WADA og að innihaldslýsingar eru oft rangar. Hann nefndi að íþróttafólk verði sérstaklega að hafa varann á, því það ber alltaf sjálft ábyrgð á því sem það neytir og getur átt á hættu að falla á lyfjaprófi og enda í keppnisbanni. Margt íþróttafólk tekur inn fæðubótarefni og telur að það hjálpi því að ná árangri í íþróttinni en fæðubótarefni geta verið hættuleg, bæði fyrir íþróttafólk og hinn almenna neytanda, að sögn Ron. Erindið var afar athyglisvert.

Næstur á svið var fyrrum Tour de France hjólreiðamaðurinn Michael Rasmussen frá Danmörku. Michael viðurkenndi í lok síns ferils, árið 2013, stórfellda lyfjamisnotkun á meðan á ferlinum stóð. Hann var einn af þeim bestu í heiminum í hjólreiðum, sigraði fjórum sinnum á sérleiðum í hinni heimsfrægu keppni Tour de France og var á góðri leið með að sigra keppnina árið 2007 þegar að liðið sem hann keppti fyrir rifti samningi hans. Það var afar sláandi að mati margra ráðstefnugesta að heyra erindi hans, en hann sagðist ekki sjá eftir því að hafa neytt ólöglegra lyfja á sínum ferli. Hann féll í raun aldrei á lyfjaprófi opinberlega, en að hans sögn var lyfjaeftirliti ábótavant í hjólreiðaíþróttinni á þeim tíma og auðvelt fyrir utanaðkomandi öfl að stjórna því. Michael svaraði spurningum gesta af mikilli hreinskilni. Hann sagðist vilja sjá betra lyfjaeftirlit innan íþróttaheimsins og minni spillingu.

Að lokum steig á svið rannsóknarblaðamaðurinn Hajo Seppelt frá Þýskalandi. Hajo hefur unnið sem rannsóknarblaðamaður í fjölda ára og gerði meðal annars heimildamyndir, í samstarfi við rússnesku afreksíþróttakonuna Yulia Stepanov og mann hennar, sem þóttu sanna skipulagt lyfjamisferli í Rússlandi. Hann talaði um að spilling hvað varðar lyfjamál hafi verið til staðar í íþróttaheiminum síðan á áttunda áratugnum. Erindi hans fjallaði mikið um lyfjamisferlið sem átti sér stað í Rússlandi og viðbrögð Alþjóðaólympíunefndarinnar við því. Hann sagðist vilja að tekið verði enn harðar á lyfjamisnotkun og má segja að hann hafi lagt sitt á vogarskálarnar í þeirri baráttu.

Fleiri myndir frá viðburðinum má sjá á myndasíðu ÍSÍ.

Myndir með frétt