Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

3

Ráðstefnan Góðir stjórnunarhættir á morgun

01.02.2017

Ráðstefnan „Góðir stjórnunarhættir – ólíkar leiðir að settu marki“ fer fram á morgun kl. 17:30 -20:30 í Háskólanum í Reykjavík. Ráðstefnan er haldin  í tengslum við RIG. Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands standa að ráðstefnunni í samstarfi við HR. Á ráðstefnunni munu þrír reyndir stjórnendur úr íþróttahreyfingunni, sem koma frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku, flytja fræðandi erindi um sína stjórnunarhætti. Allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa gert miklar breytingar á skipulagi sinna íþróttasambanda og náð mjög góðum árangri í kjölfarið. Skráning á ráðstefnuna fer fram hér. Matur er innifalinn í verði ráðstefnunnar.

Fyrirlesarar:
Jane Allen er framkvæmdastjóri breska fimleikasambandsins og tók við rekstri þess árið 2010 en hafði áður stýrt ástralska sambandinu. Hún hefur staðið fyrir umfangsmiklum breytingum og hefur tekist að fá ólíka stjórnendur og lykilaðila innan sambandsins á sitt band. Í stjórnartíð hennar hefur sambandið vaxið úr 17 starfsmönnum uppí tæplega 150. Samhliða þessum vexti óx íþróttalegur árangur sambandsins, eins og sést á fjölda verðlauna á Ólympíuleikum og Heimsmeistaramótum. Hvernig tókst henni að fá fólk til þess að fylgja sinni sýn á framtíðina? Hvernig vinnur hún með fólki til að ná þessum frábæra árangri.

Michael Pedersen er virtur sérfræðingur í íþróttastjórnun sem hefur aðstoðað leiðtoga fjölda íþróttagreina um allan heim við að bæta skipulag, endurskapa ímynd og uppræta spillingu. Hann þekkir íþróttahreyfinguna vel, ekki bara sem leiðtogi heldur líka sem þjálfari og sjálfboðaliði.

Duffy Mahoney er yfirmaður afrekssviðs hjá bandaríska frjálsíþróttasambandinu. Hann mun ræða um hvernig frjálsíþróttasambandið hefur unnið að markaðsmálum og fengið inn sterka kostunaraðila. Með sinni aðferðarfræði hefur þeim tekist að ná í stærstu kostunarsamninga innan ólympískra sérsambanda í Bandaríkjunum og þar með hafa þeir skapað nýjan rekstrargrundvöll fyrir sambandið. Síðan 2012 hefur tekist að snúa rekstrinum til hins betra eftir að sambandið stóð illa og átti á hættu að missa aðild sína að Ólympíuhreyfingunni. Hvernig fóru þeir að því? Hvaða nálgun hafa þeir tekið í samræðum sínum við kostunaraðilanna?

Ráðstefnustjóri verður Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ.