Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

3

Margt að læra um góða stjórnunarhætti

03.02.2017

Í gær fór fram ráðstefnan „Góðir stjórnunarhættir – ólíkar leiðir að settu marki“ í Háskólanum í Reykjavík. Ráðstefnan var haldin á vegum Íþróttabandalags Reykjavíkur og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í samstarfi við HR og var hluti af WOW Reykjavik International Games 2017. Á ráðstefnunni deildu þrír erlendir fyrirlesarar reynslu sinni um stjórnunarhætti í íþróttaheiminum. Ráðstefnustjórinn Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, leysti það hlutverk afar vel úr hendi.

Augljóst er að áhugi fyrir slíkri ráðstefnu var mikill því að það var uppselt.

Fyrst á dagskrá var Jane Allen framkvæmdastjóri breska fimleikasambandsins, en hún tók við rekstrinum árið 2010 en stýrði áður ástralska fimleikasambandinu. Í fyrirlestrinum sagði hún frá þeim breytingum sem hún hefur gert á rekstrinum frá því að hún tók við starfinu. Í upphafi var lagt mat á styrkleika og veikleika sambandsins. Styrkleikarnir lágu fyrst og fremst í góðu starfsfólki, sterkum félögum, íþróttamönnum á heimsmælikvarða, tryggum sjálfboðaliðum og öruggu fjármagni frá ríkisvaldinu. Hins vegar voru helstu veikleikar þeir að sambandið vantaði ákveðnari stefnu, lítil samvinna var á milli deilda, lélegt samband við félagsmenn, íþróttamenn, þjálfara og íþróttafélög. Þá þurfti fjármagn að aukast og breyta stjórnarsetu þannig að stjórnarmenn sætu ekki lengur en í átta ár til að fá inn ferskt fólk. Jane lagði áherslu á að það væri mikilvægt að þekkja styrkleika sína og fá fólk til að vinna saman bæði innan stjórnar og á meðal stjórnenda innan sambandsins. Hún talaði einnig um mikilvægi þess að grasrótinni væri vel sinnt eins og afreksfólkinu. Þá hefur hún lagt áherslu á að fulltrúar sambandsins geri sig gildandi í alþjóðastarfi fimleikahreyfingarinnar.

Á þeim árum sem Jane Allen hefur verið við stjórn hefur vöxtur breska fimleikasambandsins verið mikill, þátttakendum hefur fjölgað um 50%, mikill fjöldi dómara og þjálfara útskrifast árlega, íþróttalegur árangur hefur tekið stakkaskiptum og starfsfólki fjölgað úr 17 í tæplega 150.

Næstur á svið var Michael Pedersen, virtur sérfræðingur í íþróttastjórnun sem hefur aðstoðað leiðtoga fjölda íþróttagreina um allan heim við að bæta skipulag, endurskapa ímynd og uppræta spillingu. Hann talaði um að góðir stjórnunarhættir innan íþrótta byggðust á trausti á milli hagsmunaaðila, fjölgun iðkenda, tekjuaukningu og árangri í víðum skilningi. Þá talaði hann um ólíka stjórnunarhætti og tók um það dæmi úr ólíkum íþróttagreinum í þremur löndum.

Að lokum steig á svið Duffy Mahoney, en hann er yfirmaður afrekssviðs hjá bandaríska frjálsíþróttasambandinu. Ólíkt því sem Jane Allen lýsti þá kemur allt fjármagn til sérsambandsins frá fyrirtækjum en ekkert frá hinu opinbera. Sambandið þarf heldur ekki að leggja neitt fjármagn í uppbyggingu á greininni þar sem allt uppbyggingarstarf fer fram innan skólakerfisins. Þeirra starf snýst því eingöngu um besta íþróttafólkið. Talsverðar umbætur hafa verið gerðar á starfsemi sambandsins undanfarinn áratug og er reksturinn í dag líkari því sem þekkist í rekstri fyrirtækja. Sambandið setti sér níu mælanleg markmið til ársins 2020 sem voru m.a. að: fjölga iðkendum, auka fjármagn, lækka stjórnunarkostnað, koma á samstarfi við ólíka aðila þar sem báðir aðilar hagnast, fjölga kostunaraðilum (sponsors), fjölga verkefnum til að auka áhuga á greininni, auka notkun samfélagsmiðla og fjölga fylgjendum, setja sér og þróa alhliða viðburðarstefnu og hámarka íþróttalegan árangur á heimsmeistaramótum og á Ólympíuleikum. Í máli Duffy Mahoney kom skýrt fram að þegar kemur að styrkveitingu til íþróttamanna þá er fyrst og fremst horft á íþróttalegan árangur og þeir sem eru bestir fá mest.

Myndir með frétt