Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Ávarp forseta við setningu 73. Íþróttaþings

15.05.2017

Fyrrum forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson
Mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson
Formaður UMFÍ, Haukur Valtýsson
Heiðursforseti ÍSÍ, Ellert B. Schram
Heiðursfélagar ÍSÍ
Góðir þingfulltrúar og aðrir gestir

Ég býð ykkur velkomin til 73. Íþróttaþings ÍSÍ.

Frá síðasta Íþróttaþingi hafa þrír heiðursfélagar ÍSÍ fallið frá, þeir Reynir Ragnarsson, Ríkharður Jónsson og Magnús Oddsson. Við skulum hefja fundinn á því að standa upp og minnast þeirra og annarra látinna félaga úr hreyfingunni. 

Það er mikið að gerast í íslenskri íþróttahreyfingu og margt hefur gengið á síðan við síðast héldum Íþróttaþing, vorið 2015.
Í júní 2015 tókst ÍSÍ á við stærsta verkefni sitt frá upphafi er við héldum Smáþjóðaleikana hér á Íslandi. Veður var kalt en bjart og þótti mönnum sérstakt að horfa á kappklætt fólk keppa í strandblaki í 3ja stiga hita og hávaðaroki en sól. Að sjálfsögðu unnu Íslendingar gull í þeirri keppni.

Leikarnir heppnuðust afar vel á nánast alla mælikvarða. Íþróttafólkið okkar stóð sig með miklum sóma en alls unnu íslenskir íþróttamenn til 115 verðlauna á leikunum af 381. Af þeim voru 38 gullverðlaun, 46 silfur og 31 brons. Með frammistöðunni komst Ísland á ný í fyrsta sæti á verðlaunatöflu leikanna frá upphafi og trónir efst á lista, sama hvaða verðlauna horft er til. 
Umgjörð leikanna var til mikillar fyrirmyndar og var það mál manna að svo virtist sem hér væri um mun stærri íþróttaviðburð að ræða. Uppsetning og auglýsingar á keppnissvæðum, klæðnaður sjálfboðaliða, klæðnaður þeirra sem stóðu að verðlaunaafhendingum, eldur leikanna, skipulag á keppnisstöðum og allt viðmót sem mætti þeim sem á leikana komu, var af gæðum sem við erum mjög stolt af og skapaði heildaryfirbragð sem allar þátttökuþjóðirnar báru mikið lof á. Eiga þeir sem báru hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd leikanna miklar þakkir skyldar fyrir sitt starf. Er skipulagsnefnd Smáþjóðaleikanna undir forustu Helgu Steinunnar Guðmundsdóttur - ásamt starfsfólki ÍSÍ undir stjórn framkvæmdastjórans okkar Líneyjar Halldórsdóttur, þökkuð frábær störf að leikunum. Þá fá sérsambönd ÍSÍ sérstakar þakkir en þau sýndu og sönnuðu að þau geta með glæsibrag haldið stórmót á heimsmælikvarða.

ÍSÍ gæti ekki staðið fyrir leikum sem þessum án stuðnings og velvilja opinberra aðila og styrktaraðila. Ríki, Reykjavíkurborg, ÍBR, og samstarfsaðilar komu myndarlega að leikunum með fjölbreyttum stuðningi og fyrir það erum við afar þakklát. Sjálfboðaliðar, sem voru um 1200 í allt, stóðu sig með eindæmum vel við undirbúning og framkvæmd leikanna. Góð mæting var á þá viðburði sem voru í boði og góð stemning skapaðist á áhorfendapöllunum.

Það verður því ekki annað sagt en að framkvæmd Smáþjóðaleikana hafi tekist eins og best verður á kosið. Hins vegar voru það mikil vonbrigði að leikarnir skyldu skila nokkru tapi. Það skýrist aðallega af því að töluvert færri keppendur komu til leikanna en lokaskráning gaf tilefni til að ætla og einnig komu færri gestir en gert hafði verið ráð fyrir. Ástæður þess eru fyrst og fremst að Evrópuleikar voru haldnir nokkrum dögum eftir Smáþjóðaleikana og eins voru verkfallsaðgerðir í gangi og yfirvofandi á þeim tíma sem leikarnir fóru fram þar til skömmu áður en leikarnir voru settir. ÍSÍ varð því fyrir miklum tekjumissi vegna þessa en þá þegar hafði verið samið um hótel, fæði og annað sem þessum aðilum var ætlað að greiða fyrir.

Tíminn líður hratt því nú eru aðeins örfáar vikur þar til Smáþjóðaleikar verða haldnir að nýju. Leikar verða settir í San Marínó í lok þessa mánaðar og munu um 200 íslenskir keppendur taka þátt. Við munum að sjálfsögðu verja stöðu okkar á verðlaunatöflunni.

Frá síðasta Íþróttaþingi þá hafa helstu ógnir sem steðja að íþróttum í heiminum orðið sýnilegri og vakið menn til vitundar um að aðgerða er virkilega þörf.

Að margra mati er hagræðing úrslita í íþróttum stærsta ógnin sem steðjar að íþróttahreyfingunni í dag . Þetta eru ekki ný tíðindi en til þessa hefur þessi vá ekki verið mjög sýnileg hér á landi. Við verðum þó að vera viðbúin að takast á við þá staðreynd að hagræðing úrslita getur auðveldlega átt sér stað á Íslandi. Talið er að ólögleg erlend íþróttaveðmálafyrirtæki velti á hverju ári um 1000 milljörðum dollara svo það er greinilega eftir miklu að slægjast. Freistnivandinn er til staðar hér á landi líkt og annars staðar í heiminum.

Nauðsynlegt er að berjast gegn hagræðingu með öllum tiltækum ráðum. Heilindi íþróttanna er að veði. Það vill enginn sækja íþróttakeppni þar sem óvissa er um hvort úrslitum sé hagrætt. Hætt er við að styrktaraðilar hætti sínum stuðningi við íþróttir ef tilefni er til að efast um heilindi þátttakenda.

Til að bregðast við þessum vanda samþykkti Evrópuráðið árið 2014 samning um baráttu gegn hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum með skipulögðum hætti. Ísland er aðili að þessum samningi og er vinnuhópur, skipaður var af mennta- og menningarmálaráðuneyti, að störfum til að kortleggja hvernig ákvæði samningsins verði best uppfyllt og til hvaða aðgerða þarf að grípa hér á landi. ÍSÍ hefur einnig ásamt systursamtökum sínum á Norðurlöndunum undirritað sameiginlega yfirlýsingu um baráttu gegn hagræðingu úrslita.

Íþróttahreyfingin þarf að taka ábyrgð á þeim hluta vandamálsins sem er að finna innan lögsögu hreyfingarinnar og gæta þess að setja ákvæði og viðurlög í sitt regluverk sem taka á slíkum málum. Alþjóða Ólympíunefndin hefur sett reglur sem er ætlað að taka á þessum vanda. Þær reglur gilda fyrir ÍSÍ en engu að síður er nú unnið að því að setja sambærilegar reglur af hálfu ÍSÍ. Íþróttahreyfingin getur hins vegar ekki tekið á því sem snýr að almennum hegningarlögum eða aðilum utan hreyfingarinnar. Samvinna við opinbera aðila, ráðuneyti og lögreglu er nauðsynleg. Mikilvægt er að koma á samráðsvettvangi hér á landi um málaflokkinn eins og kveðið er á um í samningi Evrópuráðsins.

Hin ógnin sem steðjar að hreyfingunni er lyfjamisferli sem hefur verið ofarlega á baugi síðustu tvö ár. Upp komst um viðamikið samsæri í Rússlandi sem er stærsta skipulagða lyfjamisferli sem vitað er um í sögu íþrótta. Víða er pottur brotinn í lyfjaeftirliti eins og sést hefur meðal annars á fjölda þeirra sem undanfarið hafa verið sviptir Ólympíuverðlaunum vegna lyfjamisferlis, jafnvel mörgum árum eftir að til verðlaunanna var unnið.

Áherslur Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA) hafa beinst að uppljóstrunum, uppfyllingu skilyrða og leyfismálum og síðan viðurlögum gegn þjóðum eins og gerðist gagnvart Rússlandi.

Áhersla er lögð á að lyfjaeftirlit einstaka landa uppfylli skilyrði sem Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin (WADA) setur til þess að þau haldi réttindum sínum til lyfjaprófana og meðferðar niðurstaða. Það gildir einnig um rannsóknarstofur. Til að tryggja að þessi skilyrði verði uppfyllt verður allt eftirlit af hálfu WADA stóreflt.

WADA hefur þróað hugbúnað sem gerir íþróttafólki og öðrum kleift að ljóstra upp um misferli og hvaðeina annað sem getur grafið undan baráttunni gegn lyfjamisnotkun. Hugbúnaðurinn, sem heitir „Speak Up!“, tryggir trúnað og rétt þeirra sem stíga fram. Allir þeir sem vita um eða hafa rökstuddan grun um að svindl hafi átt sér stað eru hvattir til þess að stíga fram og segja frá. Lyfjaeftirlit ÍSÍ vinnur nú að því að koma upp slíkum „Speak Up!“ hugbúnaði á sinni heimasíðu og verður hann væntanlega kominn í gagnið á næstu mánuðum.

Undanfarin ár hefur verið unnið að stofnun Lyfjaeftirlits Íslands með aðkomu ÍSÍ og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki á næstu vikum og Lyfjaeftirlit Íslands verði að veruleika á þessu ári.

Íslenskt íþróttafólk stóð sig með afbrigðum vel á árinu 2016. Við gerðum góða ferð á Ólympíuleikana í Ríó og við náðum góðum árangri á Norðurlandamótum, Evrópumeistaramótum og Heimsmeistaramótum á árinu. Kvenkylfingar náðu frábærum árangri á síðasta ári og nú eigum við í fyrsta skipti í sögunni fulltrúa á LPGA mótaröðinni í Ameríku sem er sterkasta mótaröð kvenna í heimi.

Á þessu frábæra íþróttaári er þó eitt sem stendur upp úr í árangri okkar íþróttafólks. Árangur karlalandsliðsins í Evrópukeppninni í knattspyrnu í Frakklandi var hreint út sagt stórkostlegur. Fyrir litla Ísland að vinna England og komast í áttaliða úrslit var gjörsamleg ótrúlegt. Áhrif keppninnar á Ísland og Íslendinga var með algerum ólíkindum. Þjóðin bókstaflega umturnaðist og það snérist allt um Evrópukeppnina í knattspyrnu. Öll íslenska þjóðin hreifst með og Íslendingar flykktust til Frakklands til að styðja sína menn í tugþúsunda tali. Þessi tími mun seint líða íslenskum íþróttaunnendum úr minni, svo mikið gekk á. En þetta vakti ekki bara athygli á Íslandi. Hvar sem maður hefur komið á alþjóðlega fundi eða viðburði íþróttahreyfingarinnar hafa allir viljað tala um íslenskan fótbolta og þennan ótrúlega árangur.

Það er ekkert lát á árangrinum. Það stefnir í að við munum eiga skemmtilega og spennandi tíma framundan bæði í liðakeppnum og einstaklingsíþróttum. Framtíðin í íþróttum er því sannarlega björt um þessar mundir og verður spennandi að fylgjast með íslensku afreksíþróttafólki á komandi árum. 

Á þessu Íþróttaþingi er stórt og mikilvægt mál á dagskrá. Breytingar á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ verða til umfjöllunar á þinginu en að þeim hefur verið unnið frá síðasta hausti. Í lok júlí var undirritaður samningur á milli ÍSÍ og mennta- og menningarmálaráðherra um gríðarlega aukningu á fjárframlögum ríkisins til Afrekssjóðsins. Samningurinn er til þriggja ára og á árinu 2019 munu framlög ríkisins til sjóðsins nema 400 milljónum kr. Lengst af hafa framlög ríkisins verið á bilinu 20 til 30 milljónir kr. en hafa á allra síðustu árum hækkað í 100 milljónir kr. eins og fjárhæðin var á síðasta ári. Það er augljóst að þessi samningur þýðir algera byltingu í stuðningi við afreksíþróttir.

Geta Afrekssjóðs ÍSÍ til að styðja við bakið á afreksfólki verður af allt allt annarri stærðargráðu en áður. Það mun að sjálfsögðu þýða að okkar afreksfólki verður gert auðveldara að ná árangri, það mun búa við mun betri umgjörð bæði til æfinga og þátttöku í keppnum. Við væntum þess að þessar breyttu aðstæður muni sýna sig í betri árangri. Það er þó ekki það eina sem ávinnst. Staðreyndin er sú að við höfum boðið afreksfólki okkar og þeim sem vinna að þeirra málum upp á algerlega óásættanlegar aðstæður í gegnum tíðina. Það þarf ekki að fjölyrða um hvað ég á við með þeim orðum, umfjallanir fjölmiðla síðustu árin um aðstæður okkar afreksfólks hafa upplýst þá stöðu með afgerandi hætti. Þá vitum við hvernig það hefur verið fyrir sérsamböndin að reka sitt afreksstarf. Nú verður aldeilis breyting á. Nú munum við hafa getu til að styðja þannig við þá keppendur sem koma fram fyrir Íslands hönd, að sómi sé að. Vonandi eru þeir tímar að renna upp að það verði mögulegt fyrir sérsamböndin að reka alvöru afreksstarf án þess að setja fjármál þeirra í uppnám.

Það er ástæða til þess að þakka fyrir þegar vel er við mann gert. Það á svo sannarlega við núna. Illugi Gunnarsson hafði forystu af hálfu síðustu ríkisstjórnar í þessum samningum. Stuðningur Bjarna Benediktssonar þáverandi fjármálaráðherra og Sigurðar Inga Jóhannssonar þáverandi forsætisráðherra var auðvitað alger forsenda fyrir því að þessi niðurstaða náðist. Fyrir hönd ÍSÍ vil ég færa þessum mönnum innilegar þakkir og jafnframt óska þeim til hamingju með hafa stigið þetta stærsta skref sem stigið hefur verið í sögunni í fjármögnun afreksíþrótta á Íslandi. Núverandi ríkisstjórn hefur síðan með framlagningu nýrrar fjármálaáætlunar staðfest vilja sinn til að standa við samninginn. Vil ég sérstaklega þakka forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni og mennta og menningarmálaráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir þeirra atbeina í því máli.

Þessar miklu breytingar gera það að verkum að núverandi reglur Afrekssjóðs ÍSÍ eru ekki fullnægjandi fyrir þau verkefni sem nú eru framundan hjá sjóðnum. Það lá því fyrir að gera þyrfti á þeim verulegar breytingar. Það er ljóst að úthlutunarreglur sjóðsins skipta íþróttahreyfinguna afar miklu máli og þá auðvitað sérstaklega sérsamböndin sem eru umsóknaraðilar styrkja hjá sjóðnum. Því varð virkilega að vanda til verka.

Oftast nær þegar breytingar eru gerðar á reglum Afrekssjóðs þá hefur það verið gert í samstarfi framkvæmdastjórnar ÍSÍ og stjórnar afrekssjóðs. Það hefur gefist vel en yfirleitt er um minni breytingar að ræða en ekki uppstokkun á reglunum í heild. Núna eru hins vegar slíkar meiriháttar breytingar á dagskrá og því var ákveðið að fara aðra leið. Sérstaklega var mikilvægt að virkja þekkingu þeirra í hreyfingunni sem hafa mikla reynslu af alþjóðlegu umhverfi afreksstarfsins og einnig þeirra erlendu íþróttasambanda sem við erum í nánu samstarfi við.

Niðurstaðan varð sú að skipa þriggja manna vinnuhóp aðila utan stjórnar ÍSÍ og stjórna sérsambanda sem myndi forma tillögur um breytingar að höfðu víðtæku samráði við fjölda sérfræðinga bæði hér heima og erlendis auk sambandsaðila ÍSÍ. Vinnuhópurinn skilaði tillögum sínum í byrjun mars og má segja að almenn ánægja hafi verið með niðurstöðuna og vinnulag hópsins innan íþróttahreyfingarinnar.

Eftir að niðurstaða vinnuhópsins lá fyrir hófst aftur samráðsferli við sambandsaðila ÍSÍ af hálfu Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ með nokkrum fundum. Aðilum var gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri og er þeim öllum haldið til haga og voru hafðar til hliðsjónar við endanlegan frágang tillagna um breytingar á reglum Afrekssjóðs. Að lokum var vinnuhópnum gefinn kostur á að koma með athugasemdir við reglurnar eftir þessa samráðsvinnu.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu langa og viðamikla ferli fyrir þeirra framlag. Sérfræðingunum sem vinnuhópurinn leitaði til og síðan öllum þeim sem komu að málinu frá sambandsaðilum ÍSÍ. Sérstaklega vil ég þó þakka vinnuhópnum, þeim Stefáni Konráðssyni, Þórdísi Gísladóttur og Friðriki Einarssyni ásamt starfsmanni hópsins Andra Stefánssyni sem jafnframt stýrði vinnunni eftir að niðurstöður vinnuhópsins lágu fyrir.

Fyrir Íþróttaþingi liggja nú fyrir tvær tillögur. Annarsvegar um breytingar á afreksstefnu ÍSÍ sem endurspeglar þær breytingar sem fyrirhugað er að gera á reglum Afrekssjóðs og hinsvegar tillaga þar sem lýst er yfir stuðningi við fyrirætlun framkvæmdastjórnar ÍSÍ um breytingar á reglunum. Allir sambandsaðilar ÍSÍ hafa fengið til kynningar og umsagnar drög að breytingum á reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ og hafa þingfulltrúar tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum um þær á framfæri.
Það er von mín og trú að góð samstaða muni nást um þetta mál og íþróttahreyfingin gangi samstíga inn í nýja tíma.
 
Ég vil þakka fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, fyrir gott samstarf á síðastliðnum árum og þakka þann áhuga sem hann hefur sýnt íþróttastarfinu m.a. með því að sækja fjölmarga viðburði á vegum hreyfingarinnar meðan hann gegndi ráðherradómi. Þá vil ég einnig þakka núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir gott samstarf síðan hann tók við embætti en við væntum mikils af því samstarfi á komandi misserum.

Ég þakka fyrrverandi forseta Íslands og verndara íþróttahreyfingarinnar, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrir aðkomu hans að íþróttahreyfingunni. Í fjölda ára hefur hann sýnt starfsemi okkar mikinn stuðning bæði með framgöngu sinni og þátttöku í viðburðum. Þá þakka ég einnig núverandi forseta Íslands hr. Guðna Th. Jóhannessyni hans störf fyrir íþróttahreyfinguna frá því að hann tók við embætti en þar hefur hann gengið hraustlega fram eins og hans er von og vísa. Guðni hefur samþykkt að vera verndari íþróttahreyfingarinnar og erum við honum einnig þakklát fyrir það. Guðni er staddur erlendis og gat því ekki verið með okkur hér í dag en bað fyrir bestu kveðjur til Íþróttaþings.

Ég vil einnig þakka Ólympíufjölskyldunni fyrir stuðninginn undanfarin ár en hann hefur skipt miklu máli í okkar starfssemi. Fyrirtækin sem nú mynda Ólympíufjölskylduna eru - Arion banki – Valitor – Sjóvá - Toyota og Icelandair. Toyota og Arion banki eru nýir aðilar Ólympíufjölskyldunnar en Íslandsbanki er ekki lengur hluti hennar. Við þökkum hins vegar Íslandsbanka gott samstarf til margra ára um leið og við bjóðum Toyota og Arion banka velkomna í faðm Ólympíufjölskyldunnar.

Ég vil þakka samstjórnarfólki mínu og starfsfólki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands kærlega fyrir frábært samstarf á undanförnum árum þar sem hvergi hefur borið skugga á. Ég held að allir sem þekkja til starfsemi ÍSÍ geti tekið undir það að það hefur verið gæfa ÍSÍ hve heppið það hefur verið með starfsfólk og það á svo sannarlega við í dag. Sérstaklega vil ég þakka framkvæmdastjóranum, Líneyju Rut Halldórsdóttur fyrir mjög góð störf. Rétt er að taka fram að framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur ákveðið að bjóða Líneyju Rut fram sem stjórnarmann í Samtök evrópskra ólympíunefnda á aðalfundi þeirra nú í haust.
Á Íþróttaþingi er samankominn sá hópur fólks sem fer fyrir því öfluga starfi sem íþróttahreyfingin stendur að um allt land, í félögum, íþróttahéruðum, sérsamböndum og í hinum ýmsu verkefnum sem hreyfingin stendur fyrir. Þið eruð fulltrúar fyrir barna og unglingastarfið, afreksstarfið, almenningsíþróttastarfið, alþjóðastarfið og ekki síst félagsstarfið sem gerir íþróttahreyfinguna að lang öflugustu og fjölmennustu fjöldahreyfingu á Íslandi. Með miklu þakklæti býð ég þennan öflug hóp velkominn til Íþróttaþings.

Ég segi 73. Íþróttaþing sett.