Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

GSSE 2017: Hluti íþróttafólks kominn til San Marínó

29.05.2017

Setningarhátíð Smáþjóðaleikanna í San Marínó fer fram í kvöld 29. maí. Leikarnir standa yfir til 3. júní.

Flestir íslenskir þátttakendur lögðu af stað frá Íslandi í gærmorgun, en samtals eru íslenskir þátttakendur tæplega 200. Flogið var til Amsterdam, Frankfurt og London. Þeir þátttakendur sem flugu til London komust síðan ekki lengra vegna bilunar í tölvukerfi flugvallarins, en ætlunin var að fljúga þaðan til Bologna á Ítalíu. Ríf­lega 50 manna hóp­ur, þátttakendur í sundi og körfubolta, sat því fast­ur í London. Restin af hópnum skilaði sér til San Marínó í gærkvöldi. Ekki komst allur farangur hópsins á leiðarenda, spjót og stangir urðu til dæmis eftir í Amsterdam. Hluti starfsfólks ÍSÍ beið því eftir farangrinum á flugvellinum í Bologna og íslenskir þátttakendur í frjálsíþróttum gátu því sofnað sáttir vitandi að farangurinn væri væntanlegur. 

Íslenskir keppendur eru 136 talsins, en 894 keppendur eru skráðir til þátttöku á Smáþjóðaleikunum.

Lokahátíðin fer fram kvöldið 3. júní.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hópinn sem ferðaðist til Bologna í gegnum Frankfurt.

Myndir frá leikunum má sjá á myndasíðu ÍSÍ.

Ráðist var í gerð á smáforriti fyrir Smáþjóðaleikana 2017. Þar er hægt að fylgjast með úrslitum í öllum íþróttagreinum á meðan á leikunum stendur ásamt fleiru. Smáforritið má sjá hér.

Hér má sjá vefsíðu leikanna.

Myndir með frétt