Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Felix námskeið um allt land

22.06.2017

Elías Atlason starfsmaður ÍSÍ sér um Felix, félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ, ásamt öðrum tölvumálum hjá ÍSÍ. Hann hefur nú heimsótt öll héruð á landinu, samtals 25, og haldið námskeið í Felix með héraðssamböndum og deildum þeirra. Námskeiðin fóru fram í mars og apríl 2017. Þátttaka hefur verið misgóð en það hafa samtals 202 manns mætt á námskeiðin. Besta mætingin var á Siglufirði, Akureyri og hjá HSK. Fyrirhugað er að halda námskeið fyrir sérsambönd ÍSÍ.

Á námskeiðinu fór Elías yfir félagakerfið Felix, en nýja útgáfa Felix er töluvert breytt frá eldri útgáfunni. Vel var farið í héraðssambandshlutann í kerfinu.

Vefsíða Felix er Felix.is.

Felix er miðlægt tölvukerfi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) og heldur utan um íþróttaiðkendur á Íslandi. Kerfið er hannað af hugbúnaðarfyrirtækinu Idega og var fyrst tekið í notkun árið 2004. Í lok ársins 2015 var hafist handa við að hanna nýtt Felix kerfi og var það tekið í notkun í byrjun árs 2017. Nýja kerfið er mun notendavænna og einfaldara í sniðum og boðið er upp á gagnlegar viðbætur í kerfinu er t.d. lúta að skráningum á námskeið, innheimtu gjalda, o.fl. Kerfið býður upp á öfluga aðgangsstýringu sem gerir félögum kleift að aðgangstýra kerfinu. Þannig er t.d. hægt að gefa þjálfurum aðgang til að skrá og uppfæra sína iðkendur og allar breytingar sem verða gerast miðlægt sem tryggir að alltaf er verið að horfa á réttar upplýsingar. Kerfið er einnig notað til að senda inn árlegar upplýsingar til ÍSÍ en félögum ber að skila fyrir 15. apríl ár hvert inn félagatali, iðkendatali, stjórnar- og nefndarmönnum sem og lykiltölum úr ársreikningum. Þessar upplýsingar eru nauðsýnlegar og á þeim byggir tölfræði íþróttahreyfingarinnar. Þá geta félög, héraðssambönd og sérsambönd sótt sína eigin tölfræði inn í kerfið sem geta m.a. nýst við stefnumótun. Kerfið hefur verið sambandsaðilum til notkunar endurgjaldslaust.

Myndir með frétt