Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
20

EYOF 2017 - fyrsta keppnisdegi lokið

24.07.2017

Fyrsta keppnisdegi er lokið hjá íslensku þátttakendunum á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Györ í Ungverjalandi. Veður var nokkuð rysjótt um miðjan daginn og hafði áhrif á keppni dagsins í nokkrum greinum.

Fyrstir til að hefja keppni voru sundmennirnir Viktor Forafonov og Brynjólfur Óli Karlsson. Viktor synti í undanrásum 200 metra skriðsunds, þar synti hann á tímanum 1:59,30 og endaði í 31. sæti. Brynjólfur Óli synti í undanrásum 100 metra baksunds, varð hann á tímanum 1:00,76 sem var 34. besti tími undanrásanna. Hvorugur þeirra komst því áfram í milliriðla.

Í tennis þurfti að fresta keppni drjúga stund yfir miðjan daginn vegna úrhellis rigningar, var það því eingöngu Georgina Athena sem spilaði. Tapaði hún í tveimur settum gegn sterkum keppanda frá Tékklandi.

Í frjálsum keppti Hera Rán Örlygsdóttir í sleggjukasti. Aðstæður voru krefjandi með blautan hring, öll köstin voru ógild hjá henni. Í undanrásum 100 metra hlaups hljóp Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á tímanum 12.20 og vann sinn riðil. Í milliriðlum hljóp Guðbjörg Jóna á 11.99 og bætti með því sinn besta árangur. Tryggði hún með því sæti í úrslitahlaupinu sem fram fer á morgun. Birna Kristín Kristjánsdóttir tók þátt í forkeppni í langstökki, þar stökk hún 5,46 m. og náði með því að tryggja sig inn í úrslitakeppnina sem fer fram á morgun.

Í handknattleik drengja kepptu íslensku drengirnir við Slóveníu. Eftir háspennuleik varð niðurstaðan sú að Ísland tapaði með einu marki 27 - 26. Markahæstur í íslenska liðinu var Dagur Gautason með 11 mörk, næstur kom Haukur Þrastarson með 6 mörk.

Meðfylgjandi eru nokkrar svipmyndir frá keppni dagsins - mun fleiri myndir má finna á myndasíðu ÍSÍ sjá hér.

Á morgun heldur keppnin áfram hjá íslenska hópnum með keppni í úrslitum tveggja greina í frjálsum, sundi, tennis, fimleikum drengja, júdói og leik Íslands og Frakklands í handknattleik.

Myndir með frétt