Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Andlegi þátturinn mikilvægur

24.08.2017

Á dögunum fagnaði Skotfélag Reykjavíkur 150 ára afmæli, en félagið er elsta íþróttafélag landsins. Af því tilefni fékk félagið þrefaldan Ólympíumeistara í skotfimi, Ítalann Niccolo Campriani, og unnustu hans, Petra Zublasing, sem er margfaldur heims- og Evrópumeistari, til að halda fyrirlestur um markmiðasetningu og æfingar afreksíþróttafólks. Fyrirlesturinn fór fram í Háskólanum í Reykjavík og var samvinnuverkefni Skotfélags Reykjavíkur, HR og ÍSÍ. Góð mæting var á fyrirlesturinn, en hann átti erindi við allt íþróttafólk óháð íþróttagrein.

Niccolo og Petra státa bæði af glæsilegum íþróttferli, en Niccolo vann tvenn gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó og gull og silfur á Ólympíuleikunum í London 2012. Þau ræddu um íþróttaferilinn, markmiðasetningu íþróttafólks og mikilvægi þess að þjálfa andlega þáttinn, þá sérstaklega í íþrótt eins og skotfimi. Í erindi þeirra kom fram að það er ekki endilega magn æfinga sem skiptir máli heldur séu það gæði æfinganna sem hafi úrslitaáhrif. Þá komu þau inn á mikilvægi þess að afreksíþróttafólk hefði eitthvað meira fyrir stafni en að æfa íþróttagreinina til að dreifa huganum.

Campriani lagði skotvopnið á hilluna eftir leikana í Ríó á síðasta ári og hefur nú tekið við starfi hjá Alþjóðaólympíunefndinni (IOC). Þar mun hann aðstoða íþróttafólk við að skapa sér feril við hlið íþróttaferilsins, hvort sem um er að ræða menntun eða atvinnu. 

RÚV tók viðtal við þau Petru og Niccolo sem sjá má hér

Fleiri myndir frá fyrirlestrinum má sjá á myndasíðu ÍSÍ.

Myndir með frétt