Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
5

Aðgerðaráætlun gegn einelti

25.08.2017

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur gefið út hina ýmsu fræðslubæklinga. Hér má sjá útgefið efni. 

Einn slíkur kallast „Aðgerðaráætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun“, en þar má meðal annars finna upplýsingar um fyrirbyggjandi aðgerðir, skilgreiningu og helstu birtingarmyndir eineltis. Þá koma einnig fram hugmyndir að verklagsreglum íþróttafélags sem hægt er að grípa til ef einstaklingur verður fyrir einelti eða annarri óæskilegri hegðun. 

Bæklinginn má nálgast hér.

Einelti getur átt sér stað nánast hvar sem er og þar af leiðandi einnig innan íþróttahreyfingarinnar. Áhrifaríkasta tækið sem íþróttafélag hefur yfir að ráða gegn einelti eru iðkendurnir sjálfir. Þó að meirihluti þeirra eigi ekki beina aðild að einelti veit þessi hópur oft af eineltinu löngu áður en hinir fullorðnu fá vitneskju um það. Mikilvægt er að íþróttafélaginu takist að virkja þennan hóp „hlutlausra áhorfenda“ til að taka afstöðu gegn einelti í verki og tilkynna til forráðamanna íþróttafélags eða starfsfólks íþróttamannvirkis ef þeir verða varir við eða vitni að slíku. Mikilvægt er að trúnaður ríki milli barna og fullorðinna og að nafnleynd sé virt. Æskilegt væri að veita starfsfólki íþróttafélags þjálfun í að þekkja einkenni eineltis.

Mikilvægt er að íþróttafélag geri allt sem í sínu valdi stendur til að leysa eineltismál á farsælan hátt þannig að öllum geti liðið vel í starfi sínu innan félagsins. Börn og unglingar eru í íþróttum af fúsum og frjálsum vilja og þar á að vera pláss fyrir alla og allir eiga að standa jafnfætis, óháð aldri, kyni, trú og þjóðerni.

Íþróttafélögum er heimilt að gera þessar reglur að sínum, breyta þeim og aðlaga eins og gagnast þeim best. Hugsunin með framsetningu þessarra reglna er fyrst og fremst sú að færa íþróttafélögum einhvers konar tæki sem þau geta nýtt sér í starfinu.

Ef grunur leikur á að einelti eða önnur óæskileg hegðun eigi sér stað innan félags ætti að taka á málinu sem allra fyrst, þannig er líklegra að vandamálið leysist á farsælan hátt. Mælt er með því að á heimasíðu íþróttafélagsins sé að finna tilkynningarblað þar sem hægt er að koma ábendingum m.a. um einelti til skila til fulltrúa félagsins.

Hér er að finna dæmi um tilkynningarblað.