Hreint íþróttafólk fær verðlaunin sín afhent
Lyfjaeftirliti ÍSÍ og Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnuninni (WADA) er umhugað um að keppni íþróttafólks sé á jafnréttisgrunni og enginn hafi hag af misnotkun árangursbætandi efna. Síðan að upp komst um lyfjamisferli rússneska frjálsíþróttasambandsins og rússnesks íþróttafólks árið 2015 hefur markmið WADA og íþrótta- og ólympíusamtaka víðsvegar um heiminn verið að skera upp herör gegn lyfjamisnotkun í íþróttum. Sérstakur rannsóknarsjóður var stofnaður á vegum Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) sem styrkir rannsóknir tengdar baráttunni gegn lyfjamisnotkun í íþróttum.
Á nýloknu heimsmeistaramóti í frjálsíþróttum í London fengu sextán íþróttamenn loksins afhend þau verðlaun sem þeir unnu til, en Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefur reynt að bæta íþróttafólkinu upp fyrir svindlið gegn þeim með því að afhenda þeim verðlaun sín á stórum viðburðum með viðhöfn. Fjölmargir Ólympíumeistarar og heimsmeistarar í frjálsíþróttum hafa misst verðlaun sín undanfarið eftir að komist hefur upp að þeir hafi notað árangursbætandi efni. Geyma má sýni íþróttafólks í tíu ár eftir að þau eru tekin og því hægt að dæma óhreinan íþróttamann allt að tíu árum eftir brot. Með betri tækni í lyfjaeftirliti hefur verið hægt að skanna nánar sýni íþróttafólksins.
Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá Jessica Ennis-Hill frjálsíþróttakonu þar sem hún stendur á verðlaunapalli á dögunum þegar hún fékk loksins gullverðlaun sín afhent frá HM 2011.
Norræn íþrótta- og ólympíusamtök skrifuðu undir sameiginlega yfirlýsingu síðla árs 2016 sem hljóðar svo: „Við, norrænu íþróttasamtökin, samþykkjum að vinna saman gegn lyfjamisnotkun í íþróttum. Það er okkar meining að efla verði Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunina með sameiginlegu átaki óháðu íþróttasamtakanna, Lyfjaeftirlitssamtaka hverrar þjóðar (NADOs) og stjórnvalda til að tryggja áhrifaríkt lyfjaeftirlit og við lýsum okkur tilbúin til að styðja það starf.“
Ljóst er að baráttan gegn lyfjamisnotkun er ekki verkefni einstakra hópa eða samtaka, ef árangur á að nást þarf samvinnu og samstarf margra einstaklinga og hópa víðs vegar að.
Lyfjaeftirlit ÍSÍ fylgir Alþjóðalyfjareglum Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA). Nýjar og uppfærðar lyfjareglur tóku gildi 1. janúar 2017 og má sjá hér.
Tilgangur Alþjóðalyfjareglnanna er að vernda grundvallarrétt íþróttamanna til að taka þátt í lyfjalausum íþróttum og stuðla þannig að heilbrigði, sanngirni og jafnrétti fyrir íþróttamenn um allan heim. Auk þess að tryggja samræmdar, samstilltar og skilvirkar áætlanir gegn lyfjanotkun á alþjóðavísu og landsvísu hvað varðar greiningu, hömlur og forvarnir.