Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

Norræna skólahlaupið og Göngum í skólann

03.10.2017

Norræna skólahlaupið fór fram í Grunnskólanum á Suðureyri þann 18. september sl. en þetta er þriðja árið í röð sem að það fer fram í Súgandafirði. Það viðraði vel til útihlaupa, hlýtt í lofti og nokkrir dropar féllu öðru hverju til að kæla skólahlaupara niður. Á milli hlaupahringja var boðið upp á ávexti og mæltist það vel fyrir að geta hlaðið rafhlöðurnar með heilsusamlegri orku.

Margir nemendur höfðu sett sér metnaðarfull markmið í hlaupinu sem þeir stóðust með glæsibrag og allir gerðu sitt besta. Hlaupahringurinn er 2,5 kílómetrar langur í fjalladýrð við fjörðinn og fyrir litla fætur er langt að fara 2 hringi, en sumir fóru heila 6 hringi sem þýðir að nemendurnir hlupu á bilinu 5 til 15 kílómetra. Meðalhlaupalengd hefur aukist ár frá ári og var 7,02 km þetta árið en samtals hafa krakkarnir hlaupið heila 800 km á þessum þremur árum.

Hlaupið var hluti af tveggja vikna átaki Grunnskólans á Suðureyri vegna Göngum í skólann þar sem allir voru hvattir til að koma með virkum samgöngumáta í skólann. Jafnvel þau börn sem koma lengra að og búa í sveit hafa verið dugleg við það að fara úr bílnum við leikskólann og labba þaðan í skólann. Umsjónarkennarar annast svo skráningu á gönguferðum og hvetja nemendur til dáða, en á þessum tveimur vikum missti varla nokkur nemenda úr skipti. Þetta er glæsileg frammistaða hjá öflugum krökkum á Suðureyri hvort sem er í hlaupi eða göngu.

Þá var öllum börnum í 1. og 2. bekk í grunnskólum Mosfellsbæjar afhent endurskinsvesti til eignar af Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ í samvinnu við TM. Endurskinsvestin eru gefin í tengslum við Göngum í skólann og voru afhent á upphafsdegi verkefnisins þann 6.september. Þau eru mikilvægur liður í öryggismálum yngstu grunnskólanemendanna sem eru að byrja að ganga, hjóla eða ferðast á annan virkan hátt í skólann. Þá er biðlað til foreldra um að hvetja börnin til að nota virkan ferðamáta til og frá skóla, finna með þeim öruggustu leiðina og hjálpa þeim að muna eftir endurskinsvesti til að auka á öryggi þeirra í umferðinni að vetrarlagi.

Krakkarnir í Varmarskóla smelltu svo í vígalegt dabb í vestunum góðu fyrir myndatöku. Glæsilegt framtak í Mosfellsbæ.

Göngum í skólann lýkur með alþjóðlega Göngum í skólann deginum á morgun, 4. október. 

Vefsíða Göngum í skólann er gongumiskolann.is

Myndir með frétt