Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

14

Sögur af Göngum í skólann verkefninu

13.10.2017

Dagana 28. september – 4. október voru allir nemendur Hofstaðaskóla hvattir til að koma gangandi eða hjólandi í skólann í tilefni Göngum í skólann verkefnisins. Þann 4. október var alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn og hófst skóladagurinn með skópartýi þar sem nemendur og starfsfólk komu með gamla skó að heiman og lögðu til skó í skópartýið. Nemendur röðuðu skónum út frá skólanum og upp göngustíginn í átt að Mýrinni. Þátttakan fór fram úr björtustu vonum og voru skópörin alls 396 sem raðað var í gönguna og höfðu nemendur mjög gaman af þessum gjörningi. Allir skórnir voru svo gefnir til Fjölskylduhjálpar Íslands og fylltu þeir alls 15 poka. Glæsilegt framtak hjá Hofstaðaskóla og skemmtilegt skópartý fyrir góðan málstað.

Nemendur í 5., 6. og 7. bekk í Þjórsárskóla fóru í 3 klst. göngutúr þar sem meðal annars var farið í fjallgöngu á Skaftholtsfjall. Á leiðinni sáu þeir krumma og hesta og margt fleira skemmtilegt í sveitasælunni. Brekkan var brött upp fjallið en allir komust upp á topp og eftir góða hvíld var haldið til baka. Þrælfínt hjá Þjórsárskóla sem hafa verið afar virkir í Göngum í skólann og farið í hjólatúr og fleira.

Því má við bæta að margir starfsmenn í Þjórsárskóla koma víða að úr sveitinni og því ekki auðvelt að ganga í skólann á hverjum morgni. En til að taka þátt í Göngum í skólann fundu þeir lausn á því og lögðu bílunum við félagsheimilið og gengu þaðan. Göngutúrinn gerði öllum gott og er starfsfólk sammála um að það mætir ferskara til vinnu fyrir vikið.

Gullskórinn í Glerárskóla var afhentur þeim bekk sem var duglegastur í þátttöku sinni í Göngum í skólann 2017. Góð þátttaka var í skólanum sem hefur tekið þátt undanfarin ár og þetta árið skaraði 6 - GS fram úr og hlaut hinn árlega gullskó að launum.

Langholtsskóli hóf Göngum í skólann með því að allir nemendur og starfsfólk skólans tóku þátt í Norræna skólahlaupinu þann 8. september. Stóðu nemendur sig með prýði og nutu hreyfingarinnar með bros á vör í blíðviðrinu.

Þá fóru allir bekkir og samtals 641 nemandi Langholtsskóla í gönguferðir um hverfið og Laugardalinn ásamt því að vinna verkefni þar sem fjallað var um gildi góðrar hreyfingar. Unglingastigið fór í göngu í Búrfellsgjá og fjallgöngu og nemendur á miðstiginu fóru í sameiginlega göngu og hjólaferð í Gufunesbæ. Glæsilegt og metnaðarfullt hjá duglegum nemendum og starfsfólki í Langholtsskóla.

Alls tóku 70 grunnskólar þátt í Göngum í skólann í ár og er það aukning miðað við árið áður þegar að 67 skólar voru með. Fjöldamörg fræðsluverkefni, þemadagar og viðburðir áttu sér stað í grunnskólum víðsvegar um landið og vonandi hefur sú vitundarvakning bæði verið til gagns og gamans.

ÍSÍ hvetur alla til þess að halda áfram að notast við virkan fararmáta í leik og starfi. Heilbrigð hreyfing sem skilar vistvænum árangri er allra hagur.

Vefsíða Göngum í skólann er gongumiskolann.is

Myndir með frétt