Fanney Hauksdóttir Evrópumeistari heiðruð
Fanney Hauksdóttir keppti nýlega á Evrópumeistaramótinu í bekkpressu á Spáni. Fanneyju tókst þar að verja Evrópumeistaratitil sinn í 63 kg flokki annað árið í röð með því að lyfta 155 kg. Fanney hefur náð glæsilegum árangri á stórmótum, alls hefur hún fengið verðlaun á stórmótum í tíu skipti frá árinu 2013.
Haldið var hóf á vegum Kraftlyftingasambands Íslands fyrr í dag þar sem árangri Fanneyjar var fagnað. Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ ávarpaði og óskaði Fanneyju til hamingju með glæsilegan árangur. Einnig óskaði hann Kraftlyftingasambandinu og forsvarsmönnum þess sérstaklega til hamingju með glæsilegan árangur sem náðst hefur á skömmum tíma hjá sambandinu. Kraftlyftingasamband Íslands er eitt af yngstu sérsamböndum ÍSÍ en það var stofnað árið 2010.
ÍSÍ óskar Fanneyju til hamingju með titilinn!