Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
2

Styrkveitingar Afrekssjóðs ÍSÍ 2017

11.01.2018

 

Afrekssjóður ÍSÍ úthlutaði í heildina 250.450.000 kr til sérsambanda ÍSÍ á árinu 2017. 100 m.kr. voru til úthlutunar á haustmánuðum og hlutu þá 26 sérsambönd styrki, en styrkveitingar dreifðust á lengra tímabil en oft áður og hófust í byrjun september með úthlutun til Körfuknattleikssambands Íslands.

Síðsta úthlutunin fór fram til Sundsambands Íslands (SSÍ) og var hún í tengslum við lokahóf Íslandsmeistaramótsins í 25m laug sem fram fór þann 19. nóvember sl. Viðbótarúthlutun sjóðsins til SSÍ var 8 m.kr. og var því heildarúthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ til SSÍ vegna verkefna ársins 2017 alls 21.550.000 kr.

Styrkir Afrekssjóðs ÍSÍ eru fyrst og fremst til þess að greiða kostnað við æfingar og undirbúning undir keppni, sem og þátttöku í keppni á alþjóðlegum vettvangi. SSÍ leggur mikla áherslu á að halda við þeim góða árangri sem náðst hefur á undanförnum árum og hefur helst endurspeglast hjá þeim Hrafnhildi Lúthersdóttur, Eygló Ósk Gústafsdóttur og Antoni Sveini Mckee. SSÍ stendur frammi fyrir kynslóðaskiptum í sundinu og sér fram á töluverða vinnu næstu misseri í uppbyggingu yngra sundfólks. Sú vinna er þegar hafin en það sem helst hefur haldið aftur af sambandinu er skortur á fjármunum til raunverulegrar uppbyggingar. Sambandið hefur þegar hafið breytingar í starfi sínu sem miða að því að gera þetta starf markvissara og um leið uppfylla þær kröfur sem Afrekssjóður gerir um starfssemi sérsambands í Afreksflokki.

Við ákvörðun á styrkupphæð til SSÍ var horft til keppnisfyrirkomulags í íþróttinni og fjölda þeirra verkefna sem sambandið kemur að sem og umgjörð afreksstarfsins. SSÍ mun eiga keppendur á næstu Ólympíuleikum í Tokyo 2020 og mikilvægt er að hefja undirbúning fyrir það verkefni fyrr en oft áður. Tekið er tillit til árangurs sundmanna og þeirra breytinga sem eru fyrirhugaðar hjá sambandinu sem og það að sambandið á einstaklinga í fremstu röð í heiminum í sinni íþróttagrein.

Það voru þeir Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ og Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ sem undirrituðu samning Afrekssjóðs ÍSÍ við SSÍ ásamt þeim Herði J. Oddfríðarsyni, formanni SSÍ og Ingibjörgu H. Arnardóttur, framkvæmdastjóra SSÍ.