Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
15

PyeongChang 2018 - Vetrarólympíuleikar

24.01.2018

Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest val á keppendum og öðrum þátttakendum á Vetrarólympíuleikana í PyeongChang 2018 í Suður-Kóreu, en leikarnir fara fram dagana 9. til 25. febrúar nk.

Samkvæmt gögnum frá Alþjóðaskíðasambandinu (FIS) hefur Ísland fengið úthlutað kvóta fyrir einn keppanda í alpagreinum karla, einn keppanda í alpagreinum kvenna, einn keppanda í skíðagöngu kvenna og tvo keppendur í skíðagöngu karla. Alls er því um fimm keppendur að ræða og hefur verið staðfest við FIS að Ísland muni nýta þann kvóta að fullu. Úthlutun kvóta byggir á lágmörkum og árangri íslenskra keppenda á alþjóðlegum mótum á tímabilinu 1. júlí 2016 til 21. janúar 2018.

Eftirtaldir keppendur verða fulltrúar Íslands á XXIII Vetrarólympíuleikunum í PyeongChang 2018:

• Freydís Halla Einarsdóttir, alpagreinar kvenna – svig og stórsvig
• Sturla Snær Snorrason, alpagreinar karla – svig og stórsvig
• Elsa Guðrún Jónsdóttir, skíðaganga kvenna – sprettganga og/eða 10 km F (frjáls aðferð)*
• Snorri Einarsson, skíðaganga karla – sprettganga, 15km F (frjáls aðferð), 30km skiptiganga, 50km C Mst (fjöldastart, hefðbundin aðferð)
• Isak Stianson Pedersen, skíðaganga karla – sprettganga og/eða 15km ganga F (frjáls aðferð)*
*Ákvörðun um keppnisgreinar þeirra Elsu Guðrúnar og Isaks Stianson verða teknar á næstu dögum, en skráningarfrestur í einstaka keppnisgreinar er til 28. janúar nk.

Aðrir þátttakendur verða:

• Aðalfararstjóri: Andri Stefánsson
• Flokksstjóri skíðamanna: Jón Viðar Þorvaldsson
• Sjúkraþjálfari: María Magnúsdóttir
• Aðalþjálfari alpagreina: Egill Ingi Jónsson
• Aðstoðarþjálfari alpagreina: Grímur Rúnarsson
• Aðalþjálfari skíðagöngu: Vegard Karlstrøm
• Aðstoðarþjálfarar skíðagöngu: Dag Elevold og Oystein Anesen


Þá munu þau Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ verða viðstödd leikana auk þess sem að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun verða viðstödd setningarhátíð leikanna og fyrstu keppnisdaga.

Á leikunum í PyeongChang 2018 mun Ísland í fyrsta skipti eiga keppanda í skíðagöngu kvenna. Leikarnir verða settir föstudagskvöldið 9. febrúar nk. kl. 20:00 að staðartíma, en kl. 11:00 á íslenskum tíma. Verður setningarhátíðin sýnd í beinni útsendingu hjá RÚV. Lokahátíðin fer fram sunnudagskvöldið 25. febrúar nk. og hefst einnig kl. 20:00 að staðartíma.

Hægt er að fylgjast með þátttöku Íslands á leikunum á vefsíðu ÍSÍ hér.

Þátttaka Íslands á Ólympíuleikunum:

• Ísland tók fyrst þátt í Vetrarólympíuleikum árið 1948 en leikarnir það ár fóru fram í St. Moritz í Sviss. Átti Ísland fjóra keppendur á þeim leikum, þrír kepptu í alpagreinum og einn í skíðastökki. 

• Á leikunum 1952 sem fóru fram í Osló átti Ísland keppendur í alpagreinum og skíðagöngu, en 11 íslenskir keppendur tóku þátt í leikunum, 4 í alpagreinum, 6 í skíðagöngu og 1 í skíðastökki.

• Jakobína Jakobsdóttir var fyrsta íslenska konan sem keppti á Vetrarólympíuleikum, en hún keppti í alpagreinum á leikunum 1956 sem fóru fram í Cortina d´Ampezzo á Ítalíu.

• Á síðustu tveimur áratugum hefur Ísland nánast eingöngu sent keppendur í alpagreinum á Ólympíuleikana. Þó breyttist það á leikunum 2014 í Sochi er Sævar Birgisson keppti í skíðagöngu. Voru þá 20 ár liðin frá því að Ísland átti síðast keppendur í skíðagöngu, en þeir Daníel Jakobsson og Rögnvaldur Ingþórsson kepptu í skíðagöngu á leikunum 1994 í Lillehammer.