Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Ólympíumeistari með skýr skilaboð til íþróttafólks og þjálfara

28.03.2018

Dagana 23. – 25. mars fór fram á Húsavík athyglisvert námskeið, um þjálfun barna og unglinga og leiðina til árangurs í íþróttum. Það er óhætt að segja að skilaboðin voru skýr; langtímamarkmið, skemmtilegar æfingar við hæfi hvers og eins og keppnisferill sem miðaður er við 16 ára aldur.

Vladimir Vanja Gribic, Ólympíumeistari í blaki var leiðbeinandi á námskeiðinu sem bar yfirskriftina Frá grunni í gull. Gribic er fyrrum atvinnumaður í blaki, menntaður íþróttafræðingur og er í framhaldsnámi með áherslu á hreyfifræði. Hann hefur haldið fyrirlestra og námskeið víða um Evrópu, bæði fyrir íþróttafélög og fyrirtæki. Megináherslan auk sérhæfðrar blakþjálfunar er á jákvæðan liðsanda og liðsheild, en einnig á að hámarka árangur einstaklingsins. Grbic er sendiherra Special Olympics í blaki og hefur unnið að því að efla Sameinað blak, þar sem fatlaðir og ófatlaðir keppa saman í liði. Markhópar voru börn og unglingar 10 til 18 ára og þjálfarar þeirra. Sladjana Smiljanic blakþjálfari hjá Völsungi var hvatamaður að verkefninu en hún er frá sama bæ í Serbíu og Grbic. Á námskeiðinu var áhersla á þjálfun barna og unglinga en einnig fór fram kynning á blaki fyrir fatlaða og ófatlaða.

Á föstudagskvöldið var fyrirlestur þar sem Grbic fór yfir ýmsa þætti sem skipta máli í þjálfun og hvernig má virkja börn og unglinga til þátttöku með því að beina augum að upplifun þeirra af æfingum og greina hvern þátt sem haft getur áhrif á árangur og áhuga. Að mati Grbic er fjöldi æfinga marklaus ef iðkandi skilur ekki tilgang æfingarinnar, skortir einbeitingu eða áhuga til að leggja sig fram. Horft var sérstaklega á þætti sem stuðla að aukinni hreyfifærni, samhæfingu, félagsfærni og sterkri sjálfsmynd. Þátttakendur þurftu að taka virkan þátt í umræðum og leggja fram spurningar.

Á laugardag og sunnudag voru verklegar æfingar, fyrri hlutinn, á laugardag, tengdist efni fyrirlestursins og þjálfun þvert á greinar en á sunnudag var sérhæfð blakþjálfun. Um 40 börn tóku þátt í námskeiðinu þar af 10 börn með sérþarfir. Börnin og unglingarnir voru alsæl með námskeiðið og fengu mikla hvatningu til að gera sitt besta og hafa trú á styrkleikum sínum.

Þátttakendur á námskeiðinu komu m.a. frá Húsavík, Dalvík, Höfn í Hornafirði, Neskaupsstað og Mosfellsbæ. Í hópi þjálfara var fyrrum atvinnumaður í blaki og fremstu þjálfarar landsins í blaki sem vildu nýta þetta tækifæri til að bæta við þekkingu sína. Verkefnið, sem styrkt var af Ólympíusamhjálpinni, var samstarfsverkefni Blakdeildar Völsungs, BLÍ og ÍF / Special Olympics á Íslandi.

Til hamingju Sladjana og blakdeild Völsungs með þetta metnaðarfulla verkefni.

Myndir með frétt