Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
16

Laufey Sigurðardóttir með réttindi til að vera yfirdómari

12.04.2018

Laufey Sigurðardóttir, badmintondómari, hefur hlotið réttindi til að vera yfirdómari (Referee) á alþjóðlegum badmintonmótum innan Evrópu. Er hún fyrsti íslenski badmintondómarinn sem nær þessum merka áfanga. Dómaraferill Laufeyjar spannar mörg ár en hún byrjaði að dæma árið 2000. Frá árinu 2002 hefur hún dæmt á flestöllum mótum á Íslandi og frá árinu 2004 hefur hún reglulega dæmt erlendis á alþjóðlegum mótum, m.a. mótum á Evrópsku mótaröðinni. Evrópska badmintonsambandið (BE) hefur sóst eftir því við hana í gegnum árin að hún verði BE dómari, en til þess að halda þeim réttindum þarf dómari að fara á nokkur mót á ári erlendis.

Árið 2016 bauð Evrópska badmintonsambandið Laufeyju á dómaranámskeiðið BEC Referees Course í Belgíu. BE bað hana í kjölfarið um að taka að sér fyrsta verkefnið sem aðstoðaryfirdómari (Deputy Referee) á alþjóðlega mótinu Iceland International 2017. Í október sama ár var hún aðstoðaryfirdómari á alþjóðlegu móti í Finnlandi. Yfirdómari mótsins bauð henni hins vegar að vera yfirdómari mótsins, til að æfa sig, sem hún þáði. Í lok árs 2017 bauð BE henni að vera yfirdómari á alþjóðlegu móti í Slóvakíu. Þar var hún metin af matsmanni frá Evrópska badmintonsambandinu, þar sem hún fékk jákvæða dóma á öllum sviðum s.s. fyrir skipulag mótsins, samskipti við mótshaldara og starfsmenn mótsins, yfirsýn, kunnáttu ofl. Nú hefur hún fengið í hendurnar skírteini sem yfirdómari (Badminton Europe Referee). Síðan þá hefur hún verið yfirdómari á Meistaramóti Íslands 2018. Næstu verkefni hjá Laufeyju eru að vera aðstoðaryfirdómari á Evrópumóti unglinga í Eistlandi í september nk. og einnig á alþjóðlegu móti í Noregi í nóvember nk.

ÍSÍ óskar Laufeyju til hamingju með árangurinn.

Myndir með frétt